Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), man tímana tvenna í íslenskri verslun og hefur fylgst vel með þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað í umhverfi hennar hérlendis undanfarna áratugi.
Í viðtali í Fréttablaðinu í dag fer Andrés yfir þá umbreytingu sem stafræna byltingin hefur verið fyrir íslenska verslun og þjónustu, og segir m.a.;
„Eins og allir hafa tekið eftir hefur orðið gífurleg breyting á á öllu umhverfi í verslun á undanförnum árum, ekki síst nú allra síðustu árin. Sú breyting sem orðið hefur samhliða hinni stafrænu byltingu sem er að verða í verslun eins og öðrum atvinnugreinum er risastökk og heimsfaraldurinn hefur flýtt þeirri þróun gífurlega. Breytingar sem áður var búist við að gengju í gegn á fimm árum, ganga nú í gegn á einu til tveimur árum. Sjálfsafgreiðsla í verslunum og öll öppin sem eru í boði eru skýrasta dæmið um þetta. Þróun í þessa átt mun tvímælalaust verða enn hraðari á komandi árum.“