Heimar er Umhverfisfyrirtæki ársins 2025 – SnerpaPower, JÁVERK og Krónan einnig heiðruð á Umhverfisdegi atvinnulífsins
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 voru afhent á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag, 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfis- og loftslagsmálum og sýna í verki hvernig raunverulegur árangur næst með markvissum aðgerðum, nýsköpun og ábyrgri stjórnun.
Í ár voru fyrirtæki úr ólíkum greinum heiðruð — þar á meðal SVÞ fyrirtækin, Heimar og Krónan, sem og SnerpaPower sem fékk viðurkenninguna Umhverfisframtak ársins 2025 og JÁVERK sem fengu verðskuldaðar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á sínum sviðum.
Heimar – Umhverfisfyrirtæki ársins 2025
Í umsögn dómnefndar segir:
„Heimar er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur tekið afgerandi skref í átt að umhverfislega ábyrgri starfsemi og hefur forgangsraðað í þágu árangurs í umhverfismálum og sjálfbærni, hvort sem heldur er horft til ákvarðana í rekstri, fjárfestingum eða fjárfestingarákvörðunum.
Heimar hafa innleitt umhverfisstjórnunarkerfi sem tryggir að umhverfissjónarmið séu samþætt allri starfsemi félagsins. Með skýrri sýn, mælanlegum markmiðum og stöðugum umbótum hafa Heimar náð eftirtektarverðum árangri sem sést í fjölgun umhverfisvottaðra eigna, grænni fjármögnun, stýringu og vöktun orkunotkunar og minnkandi kolefnisspori. Heimar eru þannig ekki aðeins að fylgja þróuninni heldur að stýra henni með gagnsæi, ábyrgð og metnaði til að ganga lengra en lög og reglur segja til um.“
SnerpaPower – Umhverfisframtak ársins 2025
Tæknifyrirtækið SnerpaPower var heiðrað fyrir frumkvæði og nýsköpun á sviði raforkukerfa.
Úr umsögn dómnefndar:
„SnerpaPower hefur umbreytt því hvernig orkusækinn iðnaður nýtir raforku á Íslandi. Lausnin — byggð á gagnavísindum, gervigreind og vélnámi — gerir stórnotendum kleift að sjálfvirknivæða skammtíma ákvarðanatöku, bæta nýtni raforkukerfisins og styðja við orkuskiptin.“
Sérstök viðurkenning:
JÁVERK
„JÁVERK var fyrsti byggingarverktakinn á Íslandi til að fá ISO 14001 vottun og hefur leitt umbreytingu í byggingariðnaði í átt að sjálfbærni. Fyrirtækið stóð einnig að fyrsta stóra Svansvottaða verkefninu á Íslandi — miðbæ Selfoss.“
Sérstök viðurkenning:
Krónan
Krónan, félagsaðili í SVÞ, fékk sérstaka viðurkenningu fyrir öflugt starf í sjálfbærni og lýðheilsu.
Úr umsögn dómnefndar:
„Krónan vill hafa áhrif til góðs og sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Það hefur matvöruverslunin gert með því að beina kröftum sínum að umhverfi og lýðheilsu, bæði í starfsemi Krónunnar en einnig í fræðslu og miðlun til viðskiptavina til að hjálpa þeim að lifa heilsusamlegum og sjálfbærum lífsstíl.“
Dómnefnd 2025
Dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins skipuðu:
-
Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.
-
Elma Sif Einarsdóttir, forstöðukona sjálfbærni og viðskiptaþróunar hjá Stika Solutions.
-
Sigríður Ósk Bjarnadóttir,framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteinni.
Sjá nánari upplýsingar inn á vef SA.is – Smelltu hér!
