Jón Ólafur Halldórsson var gestur Jóns G. á Hringbraut þann 18. mars þar sem hann ræddi ástandið í atvinnulífinu á tímum COVID19, aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans, stöðuna í versluninni, mikilvægi stafrænnar þróunar – ekki síst í þessu samhengi, olíuverð og sameiningarkraft þjóðarinnar. Hér fyrir neðan má lesa viðtalið (ath. ekki alveg orðrétt) og horfa á viðtalið sem hefst ca. 8 mínútur og 45 sekúndur inn í þáttinn:
Mig langar að byrja á því að koma á framfæri þökkum til Samhæfingarnefndar almannavarna fyrir fumlaus og frábær viðbrögð við þessari aðstöðu sem er komin upp og við glímum við. Manni er mikið þakklæti í huga því þetta færir manni ákveðna ró og okkur öllum vonandi í samfélaginu.
Það er mjög mikilvægt [að allir standi saman] og mér hefur sýnst á flestu sem ég hef séð að það hafi verið samstillt og góð viðbrögð allra í atvinnulífinu þannig að menn eru með sínar aðgerðaáætlanir en fyrst og fremst er að fara að tilmælum samhæfingarnefndarinnar sem mér sýnist meira og minna allir vera að gera. Huga að sjálfum sér og að hvort öðru.
Það blasir við verkefnaskortur [hjá fyrirtækjum]. Ég er líka mjög ánægður með hvernig ríkisstjórnin stígur fram með sitt aðgerðaplan. Vissulega á eftir að útfæra mikið af því, en stóra málið er að þetta séu heildstæðar aðgerðir sem snúa að öllu atvinnulífinu. Vissulega hefur ferðaþjónustan fengið fyrsta höggið en það eru margar aðra greinar sem eru samofnar ferðaþjónustunni og þurfa svo sannarlega, og munu svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda þegar fram í sækir og þess vegna verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta mun spilast En aðalmálið núna er að það þarf að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi, verja störfin í landinu, og það er það sem er lykilatriði núna. Forðast mikið atvinnuleysi.
[Það þarf einhvern veginn að skoða greiðslustöðu einstaklinga og fyrirtækja] Já, ríkisstjórnin er líka að leggja sitt af mörkum í þessu með því t.d. að blása lífi í bankana, að gera þeim auðveldara fyrir að fylgja eftir fyrirtækjum og einstaklingum og ég held að það sé einmitt mikil þörf á að það verði samhæfðar aðgerðir. Fyrirtæki geti búist við því að það verði skilningur á aðstæðum og mögulega lengt í lánum eða hvernig sem það nú er. Og ríkið kemur þá líka að þessu með sínar aðgerðir sem gætu verið að fresta skattgreiðslum eða með einhverju slíku. Þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum sjó núna næstu mánuði. Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta tekur langan tíma, en það að koma í veg fyrir atvinnuleysi, að fyrirtækin nái að lifa þessa erfiðu tíma, skiptir bara öllu máli um þessar mundir.
[Að segja upp fólki tekur þrjá mánuði og þá kannski er kúfurinn, eða skaflinn, að baki] Já, það leysir kannski ekki málin nema einhvern stuttan tíma að ráðast í slíkar aðgerðir en mér finnst almennt séð fyrirtæki vera að sýna mikla ábyrgð, reyna að verja störfin, og síðan þetta útspil ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins, og reyndar verkalýðsforystunnar, um það hvernig við ætlum að taka á málum núna, annars vegar þegar fólk situr í sóttkví, og síðan í framhaldinu hvernig atvinnutryggingasjóður mun koma að málum með atvinnulífinu, að fólk haldi launum. Því það versta sem gæti komið fyrir okkur núna er ef einkaneyslan dregst mikið saman, því það er ekki margt sem er að knýja hagvöxtinn áfram í dag eins og við þekkjum.
[Hvernig er staðan í versluninni, er nóg til af birgðum og vörum í landinu?] Já, það er nóg til af öllu og það er ástæða til að hvetja til varkárni í öllu og ég held að það sé ekki nein ástæða fyrir fólk að fara í þetta hamstur eins og við sáum í síðustu viku. Það er nóg til, hvort sem það eru matvæli eða lyf, það er tryggt. Þannig að ég held að ef við bara sýnum smá hyggjuvit í þessu, förum okkur hægt, og gerum okkur grein fyrir því að þegar við erum að hamstra þá erum við að taka eitthvað frá öðrum og ganga bara hægt um í þessu, af skynsemi. Og það er líka mikið álag sem fylgir þessu í verslunum og ég held að með því að sýna bara ró og skynsemi þá eigum við að geta farið í gegnum þetta.
Það sem er hinsvegar alvarlegt núna er að við sjáum það að verslunin er að dragast saman almennt. Við vitum af því að t.d. inni í verslunarmiðstöðvum er u.þ.b. 40% minna af traffík nú þegar og við höfum heyrt af því að samdráttur í fataverslun sé allt að 80%. Þannig að þetta eru vissulega erfiðir tímar og það eru þrengingar í verslun og þjónustu núna. Og ég hef líka velt fyrir mér, þegar maður hugsar um veikingu á krónunni, sem dæmi, að þetta getur þýtt það að verðlagið muni hækka og þá kemur þrýstingur á þetta sem náðist þó að koma böndum á í lífskjarasamningnum, að halda aftur af verðbólgunni, lækka vexti og hafa kaupmáttinn.
[Vefverslun hefur blómstrað sem aldrei fyrr] Já, vefverslunin hefur verið að styrkjast hér á landi undanfarin misseri sérstaklega og við sjáum það að þau fyrirtæki sem riðu á vaðið með matvöruna, þau eru sjálfsagt að uppskera akkúra núna í þessum töluðu orðum. Og ég held að hefðbundin verslun þurfi að sjálfsögðu, bara almennt séð, að finna út þetta samspil hefðbundinnar verslunar og vefverslunar því að það er það sem er að koma, og þess vegna þessi ráðstefna okkar um daginn um stafræna þróun og og framtíð, þar einmitt kristallast svo vel hver áskorunin er í rauninni.
[Erum við eitthvað aðeins á eftir í upplýsingatækni?] Já, rannsóknir, bæði innlendar og það sem við höfum séð erlendis, á því sem hér er að gerast benda til þess að við höfum dregist heldur aftur úr þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við og það þarf að taka á þessu. Mér finnst nú ráðamenn þjóðarinnar, sem koma að málum með okkur, þeir hafa alveg góðan skilning á þessu. Það er búið að, t.d. að ráða stafrænan leiðtoga inn í stjórnarráðið sem dæmi, þannig að það er vel og stjórnarráðið sjálft er að stíga fram, og það er vel. Og ef að þeirra aðgerðir næstu 3-5 árin ganga eftir þá mun kostnaður ríkisins lækka um 10 milljarða bara af því að menn fara þessa stafrænu vegferð. Og það er þetta sem við erum að segja að atvinnulífið, stjórnvöld og háskólasamfélagið þurfi að gera, við þurfum svolítið að ráðast í það saman að móta einhverja stefnu, eins og nágrannaþjóðirnar hafa gert, finna einhvern vettvang, þar sem við munum búa til stefnuna og eftir það er miklu auðveldara fyrir okkur að vinna okkur í haginn fyrir framtíðina.
[Hráolía hefur verið að lækka á heimsmörkuðum. Færri ferðalög þýðir minni tekjur á bensínstöðvum. Hvernig sérðu það högg fyrir þér?] Við finnum fyrir þessu, eins og bara öll fyrirtæki í landinu. Við erum nátengd ferðaþjónustunni, þannig að við merkjum þetta mjög vel. Og það er allt rétt sem þú segir. Auðvitað er þó jákvætt í þessu að olíuverð lækkar, það minnkar verðbólguþrýstinginn sem við erum kannski að horfast í augu við að einhverju leyti í dag. En það er alveg rétt, það er keyrt minna, það eru færri á ferðinni í dag, og við sjáum það alveg klárlega að þetta mun rífa í hjá okkur sem og annarri verslun í landinu. Þannig að ég er ekki að segja að ég sé kvíðinn, einhvern tímann rís þetta nú allt aftur, og ég geri nú ráð fyrir því að olíuverð muni nú hækka sosum aftur, þetta er takmörkuð auðlind sem hefur þá tilhneigingu að hækka.
[Það er svolítill sameiningarkraftur í þjóðinni þessa dagana, er það ekki?] Jú, ég tek undir þetta. Mér finnst ég finna fyrir mikilli samkennd. Mér finnst alveg til fyrirmyndar að sjá hvernig starfsfólk tekur þessu almennt af ró og yfirvegun. Það skiptir gríðarlega miklu máli, að sýna einmitt þessa miklu yfirvegun þegar kemur að þessu ástandi. Ég get vel skilið að fólk beri kvíða í brjósti fyrir ástandinu og þetta er mikill vágestur sem er í okkar samfélagi og herjar á heimsbyggðina alla en mér finnst ég samt á þessum tíma finna fyrir því að það er samstaða og að við Íslendingar erum alveg meistarar í því að fara í gegnum krísur. Við höfum séð það.