Íslenskt – gjörið svo vel

Íslenskt – gjörið svo vel

Ef einhvern tíma hefur verið mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman er það við þær aðstæður sem nú eru uppi í atvinnulífinu. Það skiptir miklu máli að almenningur beini viðskiptum sínum sem mest að íslenskum fyrirtækjum, ekki síst fyrirtækjum í verslun og þjónustu, og leggi þar með sitt að mörkum til að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný. Stjórn Samtaka verslunar og þjónustu samþykkti að koma að kynningarátakinu „Íslenskt – gjörið svo vel“ með myndarlegum hætti og stuðla þannig að því að sem flest fyrirtæki komist í gegn um þá tímabundnu erfiðleika sem við nú horfumst í augu við.

Sl. föstudag var undirritaður samningur um verkefnið milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins. Á grundvelli samningsins verður hrint í framkvæmd myndarlegu kynningarátaki sem miðar fyrst og síðast að því að halda atvinnustarfsemi gangandi í landinu. Mun kynningarátakið á næstu mánuðum verða notað til að koma hvatningu og skilaboðum til almennings og fyrirtækja um mikilvægi þess að beina viðskiptum sínum til innlendra fyrirtækja. Skilaboðunum verður miðlað eftir ólíkum boðleiðum, ekki síst í gegn um samfélagsmiðla, vefmiðla, útvarp og sjónvarp.

Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er það mikið fagnaðarefni að þessu sameiginlega kynningarátaki hafi verið hrint úr vör. Samtökin vilja því hvetja almenning að sýna í verki þann samtakamátt sem við Íslendingar erum þekktir fyrir og skipta sem mest við íslensk fyrirtæki í öllum atvinnugreinum. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um verkefnið:

Íslenskt- gjörið svo vel: Sameiginlegt átak stjórnvalda og atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa undirritað samning um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun undir heitinu:
Íslenskt – gjörið svo vel.

Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Markmið samningsins er að móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er  aukin.

Ríkið leggur 100 milljónir kr. til verkefnisins sem verður nýtt í fjármögnun á hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis.

Grunnur samningsins er það fordæmalausa ástand sem uppi er í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19 og þau áhrif sem faraldurinn hefur haft hér á landi. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður  unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

„Með þessu framlagi og samstarfi kynnum við og minnum á ágæti íslenskrar framleiðslu. Það er nauðsynlegt að  lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg og milda höggið af COVID-19 sem er óhjákvæmilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Við þurfum nú sem aldrei fyrr að standa vörð um íslenska framleiðslu og þjónustu. Með þessu framlagi stjórnvalda tökum við höndum saman við atvinnulífið við að sporna gegn áhrifum COVID-19,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Ráðherrarnir og samningsaðilar undirrituðu samninginn rafrænt, en hittust öll á fjarfundi til að innsigla samkomulagið. Á fjarfundabúnaði voru auk ráðherranna: Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ.

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:

Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.

Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.

Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.

Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.

Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.

SVÞ, SAF og SI hafa tekið höndum saman um verkefnið Höldum áfram!

SVÞ, SAF og SI hafa tekið höndum saman um verkefnið Höldum áfram!

Höldum áfram!  er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins en verkefninu er ætlað að vera liður í því að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eftir bestu getu á tímum COVID-19. Hugmyndin er að virkja félagsmenn sem allra mest og fá þá til þátttöku í verkefninu.

Verkefnið er unnið eftir lean-aðferðafræðinni og því er farið af stað þó ekki sé allt fullkomið þar sem alltaf má bæta og þróa. Vefurinn www.holdumafram.is hefur verið opnaður en þar eru komnar ýmsar upplýsingar sem gagnast ættu aðildarfyrirtækjum. Sett hefur verið upp Facebook-síða verkefnisins, Facebook.com/holdumaframog verkefnið er einnig á Instagram, Instagram.com/holdumafram, þar sem efni verður deilt sem snýr bæði að almenningi og fyrirtækjum. Þá hefur verið settur upp Facebook hópurinn SAF, SVÞ og SI halda áfram! sem er eingöngu ætlaður félagsmönnum.

Verkefnið snýr meðal annars að því að:

  • Hvetja almenning að versla við íslensk fyrirtæki
  • Setja fram hugmyndir fyrir almenning um hverskonar viðskipti er hægt að eiga á þessum tímum
  • Safna saman tilboðum frá félagsmönnum
  • Flytja fréttir af því sem félagsmenn eru að gera sem kann að vera áhugavert fyrir almenning og getur líka verið hvatning og innblástur fyrir önnur fyrirtæki

Við hvetjum félagsmenn til þátttöku og almenning til að taka áskoruninni og halda áfram viðskiptum eftir því sem fólk getur, til að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi!

Tímabundin rekstrarráðgjöf Litla Íslands fyrir SVÞ félaga

Tímabundin rekstrarráðgjöf Litla Íslands fyrir SVÞ félaga

Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna. Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir lögmaður og viðurkenndur bókari en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf.

Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að ræða við rekstrarsérfræðing Litla Íslands geta pantað símatíma eða rekstrarviðtal á LitlaIsland.is/rekstrarvidtal

 

Hvað felst í rekstrarráðgjöf Litla Íslands? 

 

1. Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir helstu þætti í rekstrinum og hvar betur megi fara. Ef rekstrargrunnur er almennt góður en styrkja mætti hann enn frekar er félagsmanni bent á hvar hann getur leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni. Því sterkari sem rekstrargrunnur fyrirtækja er því meiri líkur eru á að yfirstíga tímabundinn rekstrarvanda.

2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er veikur og illa undir það búinn að takast á við áskoranir í atvinnulífinu og erfið rekstrarskilyrði getur félagsmaður fengið aðstoð við að greina veikleika í rekstri sem og leiðir til úrbóta með rekstrarúttekt. Í framhaldi er félagsmanni bent á hvar hann geti leitað frekari aðstoðar við endurskipulagningu.

2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er að bresta getur félagsmaður fengið neyðaraðstoð sem felst m.a. í greiningu á greiðsluerfiðleikum sem og úrræðum til að takast á við aðkallandi greiðsluvanda. Ef rekstur er lífvænlegur fær félagsmaður ráðleggingar um úrræði við greiðsluvanda sem og fyrstu hjálp við að fyrirbyggja frekari rekstrarvanda eða gjaldþrot. Í aðstoð felst m.a. samskipti við kröfuhafa og viðskiptabanka þar til mesta hættan er liðin hjá og félagsmaður á tök á að leita frekari aðstoðar við fjárhagslega uppbyggingu.

3. Ef rekstrarviðtal leiðir í ljós brostinn rekstrargrunn og gjaldþrot er óumflýjanlegt fær félagsmaður ráðleggingar á sviði skiptaréttar svo gjaldþrot fari fram í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaga.

 

Þú getur bókað ýmist 15 mínútna símatíma eða klukkustundarlangt viðtal.

Athugið að rekstrarráðgjöf Litla Íslands er eingöngu í boði fyrir fyrirtæki sem eru aðilar að þeim samtökum sem að verkefninu standa, þ.e. Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Frekari upplýsingar um verkefnið og samtökin sem að því standa má finna hér.