Vöruskortur vegna kórónufaraldursins

Vöruskortur vegna kórónufaraldursins

Í tíufréttum á RÚV 29. júlí sl. var fjallað um að eitthvað hafi borið á vöruskorti í verslunum vegna kórónufaraldursins. Í umfjölluninni er m.a. rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ sem segir að það geti komið upp tilvik þar sem ekki sér eðlilegt framboð á vörum en þó sé ekki hægt að tala um vöruskort sem slíkan heldur sé frekar um að ræða gífurlega eftirspurn eftir vörunni.

Smelltu hér til að horfa á fréttina sem hefst á 04:34

 

Mikilvæg skilaboð frá almannavörnum

Mikilvæg skilaboð frá almannavörnum

Almannavarnir hafa beðið okkur að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:

Frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna Covid-19
27.7.2020

Í morgun funduðu almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna þeirra smita sem greinst hafa á Íslandi frá 8. júlí. Í dag eru í heildina 21 einstaklingur með staðfest smit veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og 173 eru í sóttkví. Um ellefu aðskilin mál er að ræða. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint sýni til þess að finna uppruna og samhengi smitanna.

Þeir einstaklingar sem eru með staðfest smit hafa sýnt einkenni veirunnar en enginn er alvarlega veikur og enginn er á sjúkrahúsi. Helstu einkenni nú eru hálssærindi, vöðva- og beinverkir og slappleiki. Einhverjir hafa haft vægan hita og höfuðverk. Það er mikilvægt ef fólk finnur fyrir þessum einkennum, þótt væg séu, haldi sig til hlés og fari strax í greiningarpróf. Sömuleiðis er áríðandi að þeir sem fara í sýnatöku haldi sig heima þar til neikvæð niðurstaða hefur borist.

Með aðgerðum almannavarna, embættis landlæknis og stjórnvalda hefur hingað til náðst góður árangur í að hefta útbreiðslu Covid-19 hér á landi. Mikilvægt er að fólk hugi vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þar er handþvottur og sótthreinsun lykilatriði. Rétt er að brýna fyrir almenningi að gera slíkt áfram og að þjónustufyrirtæki og stofnanir sjái til þess að sóttvarnir séu til staðar. Ábendingar hafa borist um að sótthreinsivöki sé búinn eða ekki til staðar í verslunum, þjónustufyrirtækjum og stofnunum.

  • Með þessum pósti biðlum við til fyrirtækja og stofnana að skerpa á tilmælum um sóttvarnir bæði hjá starfsmönnum og viðskiptavinum en leiðbeiningar má sjá hér að neðan;
  • Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.
  • Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum.
  • Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.
  • Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.
  • Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
  • Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
  • Ef þú ert eldri borgari eða með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma er ráðlagt að halda sig fjarri mannamótum og fjöldasamkomum.
  • Forðastu að umgangast fólk sem er með einkenni sem minna á flensu.

Leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu:

Íslenska: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38919/Lei%C3%B0beiningarframl%C3%ADnustarfsmenn%2010032020_KSJ-IM.pdf

Enska: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38938/Lei%C3%B0beiningarframli%CC%81nustarfsmenn_ENSKA.pdf

Pólska: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38996/Leidbeiningar%20framlinustarfsf olk_polish.pdf

Covid.is – Vinnustaðir: https://www.covid.is/undirflokkar/vinnustadir

Á vefsíðunni www.covid.is er hægt að prenta út leiðbeiningar og veggspjöld sem hægt er að nýta: https://www.covid.is/veggspjold

Íslenskt – gjörið svo vel

Íslenskt – gjörið svo vel

Ef einhvern tíma hefur verið mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman er það við þær aðstæður sem nú eru uppi í atvinnulífinu. Það skiptir miklu máli að almenningur beini viðskiptum sínum sem mest að íslenskum fyrirtækjum, ekki síst fyrirtækjum í verslun og þjónustu, og leggi þar með sitt að mörkum til að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný. Stjórn Samtaka verslunar og þjónustu samþykkti að koma að kynningarátakinu „Íslenskt – gjörið svo vel“ með myndarlegum hætti og stuðla þannig að því að sem flest fyrirtæki komist í gegn um þá tímabundnu erfiðleika sem við nú horfumst í augu við.

Sl. föstudag var undirritaður samningur um verkefnið milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins. Á grundvelli samningsins verður hrint í framkvæmd myndarlegu kynningarátaki sem miðar fyrst og síðast að því að halda atvinnustarfsemi gangandi í landinu. Mun kynningarátakið á næstu mánuðum verða notað til að koma hvatningu og skilaboðum til almennings og fyrirtækja um mikilvægi þess að beina viðskiptum sínum til innlendra fyrirtækja. Skilaboðunum verður miðlað eftir ólíkum boðleiðum, ekki síst í gegn um samfélagsmiðla, vefmiðla, útvarp og sjónvarp.

Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er það mikið fagnaðarefni að þessu sameiginlega kynningarátaki hafi verið hrint úr vör. Samtökin vilja því hvetja almenning að sýna í verki þann samtakamátt sem við Íslendingar erum þekktir fyrir og skipta sem mest við íslensk fyrirtæki í öllum atvinnugreinum. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um verkefnið:

Íslenskt- gjörið svo vel: Sameiginlegt átak stjórnvalda og atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa undirritað samning um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun undir heitinu:
Íslenskt – gjörið svo vel.

Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Markmið samningsins er að móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er  aukin.

Ríkið leggur 100 milljónir kr. til verkefnisins sem verður nýtt í fjármögnun á hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis.

Grunnur samningsins er það fordæmalausa ástand sem uppi er í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19 og þau áhrif sem faraldurinn hefur haft hér á landi. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður  unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

„Með þessu framlagi og samstarfi kynnum við og minnum á ágæti íslenskrar framleiðslu. Það er nauðsynlegt að  lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg og milda höggið af COVID-19 sem er óhjákvæmilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Við þurfum nú sem aldrei fyrr að standa vörð um íslenska framleiðslu og þjónustu. Með þessu framlagi stjórnvalda tökum við höndum saman við atvinnulífið við að sporna gegn áhrifum COVID-19,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Ráðherrarnir og samningsaðilar undirrituðu samninginn rafrænt, en hittust öll á fjarfundi til að innsigla samkomulagið. Á fjarfundabúnaði voru auk ráðherranna: Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ.