Skýrari fjöldatakmarkanir í verslunum

Skýrari fjöldatakmarkanir í verslunum

Að gefnu tilefni:

Í dag hefur skrifstofa SVÞ átt samskipti við heilbrigðisráðuneytið vegna samkomutakmarkana í verslunum. Ástæðan er sú að verslunum hefur þótt erfitt að átta sig á hver sé leyfilegur hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunarrými hverju sinni miðað við gildandi reglur.

Það skal upplýst að í farvatninu er reglugerðarbreyting sem sker úr um að verslunum með verslunarrými sem nemur upp að 100 fermetra flatarmáli sé heimilt að taka á móti 50 viðskiptavinum í einu. Í stærri rýmum en 100 fermetrar að flatarmáli má til viðbótar taka á móti 5 viðskiptavinum fyrir hverja 10 fermetra umfram 100 fermetra en þó aldrei fleiri en 500 viðskiptavinum í einu.

Svo dæmi sé tekið mega verslanir því taka á móti;

  • 50 viðskiptavinum í 90 fermetra verslunarrými,
  • 55 viðskiptavinum í 110 fermetra verslunarrými,
  • 150 viðskiptavinum í 300 fermetra verslunarrými,
  • 200 viðskiptavinum í 400 fermetra verslunarrými
  • 500 viðskiptavinum í 1.000 fermetra verslunarrými eða stærra.

Áfram verður skýrt kveðið á um grímuskyldu í verslunum og að öðru leyti verður mælst til þess að þess verði gætt að 2 metra bil verði milli viðskiptavina, s.s. í biðröðum á kassasvæði.

Afhending dregist í COVID

Afhending dregist í COVID

Rætt er við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, í Fréttablaðinu 28. október þar sem hann segir ekki stefna í vöruskort hér á landi en að faraldurinn hafi haft áhrif á framleiðslukerfi heimsins. Afhendingartími ýmissa vara hafi dregist. „Það er einfaldlega vegna þess að ýmsir íhlutir, til dæmis í bíla og húsgögn, eru framleiddir á fáum stöðum í heiminum og það þarf ekki meira til en að einni verksmiðju sé lokað vegna Covid til að afhendingartíminn lengist.“

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA Í HEILD SINNI

Um grímuskyldu

Um grímuskyldu

Nokkurrar óvissu hefur gætt um framkvæmd reglugerðar nr. 587/2021frá 25. júlí s.l. um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Óvissan hefur einkum beinst að því hversu langt skyldan til að bera andlitsgrímur nær.

SVÞ finnst því ástæða til að skýra þessi atriði frekar.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar er einungis um að ræða skyldu til að bera andlitsgrímu inni í verslunum og öðrum sambærilegum stöðum, þegar ekki er hægt að tryggja a.m.k eins metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ákvæði sem upphaflega var í reglugerðinni þess efnis að einnig bæri að bera andliltsgímur þegar loftræsting væri ófullnægjandi, hefur verið felld út.

Eftir þessu er það lagt í hendur hvers fyrirtækis fyrir sig að meta hvenær ekki er hægt að tryggja nálægðartakmörkun með fullnægjandi hætti.

EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, í samvinnu við UNI Europe, sem eru samtök launafólks í Evrópu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á evrópsk stjórnvöld að styðja við verslunarfyrirtækin með því að efla stafræna hæfni fyrirtækja og starfsfólks í verslunum. Skilaboðin bæði til Evrópusambandsins og ríkisstjórna í álfunni eru skýr:

Við höfum staðið vaktina í heimsfaraldri, nú er komið að ykkur að styðja verslunargeirann í stafrænni hæfni og umbreytingu.

Þetta er í fullkomnu samræmi við hvatningu SVÞ og VR til stjórnvalda um að styðja við íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra í þessari stóru umbreytingu. Eins og kunnugt er hafa þessi tvö samtök, ásamt Háskólanum í Reykjavík, leitað eftir stuðningi stjórnvalda við að koma á klasasamstarfi um eflingu stafrænnar hæfni. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að í framhaldinu komist á sem víðtækast og öflugast samstarf um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði almennt.

Í fréttatilkynningu EurocCommerce, sem lesa má í heild sinni hér, er m.a. haft eftir framkvæmdastjóra EuroCommerce, Christian Verschueren:

„Verslun snýst um fólk, þjónustu við fólk. Allir sem vinna í verslun hafa unnið hörðum höndum til að tryggja að neytendur hafi áreiðanlegt aðgengi að nauðsynjavörum nú í COVID-19 faraldrinum. Margir smásalar sem ekki selja matvöru hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af endurteknum og löngum lokunum í mörgum löndum. Faraldurinn hefur hraðað stafrænni umbreytingu og netsölu gríðarlega. Evrópusambandið og stjórnvöld í ríkjum Evrópu þurfa nú að hjálpa fyrirtækjunum okkar, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að byggja upp þá færni sem starfsfólki þeirra er nauðsynleg til að nýta sem best þessi stafrænu tól.”

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, eins og allir vita. Langflest fyrirtæki í verslun í Evrópu eru annað hvort lítil eða meðalstór og veita um 28 milljónum manna vinnu. Það skiptir því sköpum fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar hvernig henni tekst að aðlaga sig að þeim stafrænu umbreytingum sem eru þegar skollnar á allt í kring um okkur. Stjórnvöld, hvar sem er í Evrópu, geta ekki setið hjá á þess að koma að þessari vegferð með atvinnulífinu. Þessi skilaboð geta ekki verið skýrari.

Upptaka frá kynningarfundi: Redefining Reykjavík

Upptaka frá kynningarfundi: Redefining Reykjavík

Nýlega stóðu SVÞ og SAF að félagsfundi þar sem Lína Petra, forstöðumaður markaðsmála á Höfuðborgarstofu, Elín Helga frá Hvíta húsinu og Frosti frá Birtingahúsinu kynntu markaðsátak Reykjavíkur og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til erlendra ferðamanna. Átakið hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði og verður keyrt af stað um leið og aðstæður leyfa.

Hér fyrir neðan má sjá upptöku frá fundinum:

Við minnum einnig á skráninguna á VisitReykjavik.is vefinn og borginokkar.is sem fjallað var um á fundinum.

Hafa má samband í netfangið info@visitreykjavik.is ef aðstoð vantar við skráningu og ef fólk hefur frekari spurningar um herferðina má hafa samband við Línu Petru Þórarinsdóttur, forstöðumann markaðsmála Höfuðborgarstofu: lina@visitreykjavik.is