Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

SVÞ efast um að búvörusamningar standist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.

Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.

Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.

Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.

Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga

Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál

Exit mobile version