Göngum í takt
Þróun og nýting stafrænnar tækni hefur tekið risavaxin og hröð skref síðustu misserin. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur þessi þróun orðið svo ör í t.d. verslunar- og þjónustugreinum, að ekki er hægt að lýsa því öðruvísi en sem byltingu.
Fyrirtæki og starfsmenn þeirra eru mjög misvel undirbúin því hvernig takast á við þessa byltingu, en gríðarlega miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, jafnt efnahagslegir sem menningarlegir. Stafræn hæfni okkar allra er því það lykilatriði sem getur skorið úr um hvernig þjóðfélag okkar mun þróast á næstu árum og mun segja til um stöðu okkar í alþjóðlegu samfélagi.
SVÞ, VR og Háskólinn í Reykjavík hafa nú um nokkurt skeið unnið að því að koma á samstarfsvettvangi um eflingu stafrænnar hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði. Markmið slíks samstarfsvettvangs er ekki síst það að brúa það stafræna bil sem er á milli þeirra sem nýtt geta tækni stafrænnar umbreytingar í sína þágu og þannig notið ávinningsins af henni, og hinna sem eftir sitja. Á það jafnt við fyrirtækin og launafólkið sem hjá þeim starfa.
Þar sem um er að ræða samfélagslegt verkefni sem kemur okkur öllum við og hefur það að markmiði að auka lífsgæði með þróun starfa og aukinni þjálfun einstaklinga í ný verkefni sjá VR og SVÞ ekki annað fært í stöðunni en að vinna að því í sameiningu. Þegar kemur að svo stóru samfélagslegu máli verða önnur ágreiningsmál að víkja. VR og SVÞ eru ekki sammála um allt, en í þessu máli göngum við fullkomlega í takti!
Stjórnvöld gefi skýr skilaboð
Við sem ýtt höfum þessu verki úr vör leggjum áherslu á að stjórnvöld komi að verkefninu af nokkrum lykilástæðum:
- a. Til að gefa skýr skilaboð um að við viljum skapa einn öflugan samstarfsvettvang þvert á samfélagið þar sem við getum sameiginlega unnið að þessu stóra verkefni.
- b. Til að undirstrika mikilvægi verkefnisins.
- c. Og til að sýna stuðning við íslenskt atvinnulíf og fólk á vinnumarkaði í verki.
Sama er að segja um okkar fólk í Evrópu allri, en nýlega sendu EuroCommerce, samtök verslunarinnar í Evrópu, og UNI Europe, samtök launafólks í Evrópu frá sér sameiginlega áskorun til Evrópusambandsins og ríkisstjórna aðildarríkjanna um að styðja fyrirtæki og starfsfólk í stafrænni umbreytingu.
Stafræna bilið er raunverulegt – hættan er raunveruleg
Einstaklingar, fyrirtæki – og þjóðir – sem ekki hafa þá stafrænu hæfni sem þarf, verða á endanum undir. Hér á landi er þetta bil raunverulegt og það fer stækkandi.
Stafræna bilið hjá einstaklingum er munurinn á þeim sem kunna að nota tæknina í lífi og starfi og hinna sem ekki kunna það. Störf eru að breytast. Störf sem þarfnast lítillar færni hverfa en þau störf sem skapast kalla á stafræna hæfni og framfarahugarfar. Rannsóknir sýna að með stafrænni umbreytingu eru tækifæri til að skapa fleiri störf en þau sem hverfa. Störfin eru betur launuð, verðmætari og færa má rök fyrir því að þau séu meira gefandi fyrir einstaklinginn. Einhæf handavinna hverfur fyrir skapandi hugsun. Breytingarnar eru því þannig að það er eftir miklu að slægjast fyrir einstaklinginn og samtök verzlunarmanna mun auðvitað standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni að réttlát skipting verði á þeim verðmætum sem skapast með aukinni stafrænni tækni.
Stafræna bilið hjá fyrirtækjunum er munurinn á þeim sem ákveða að nota tæknina til að auka samkeppnishæfni sína og hinna sem eftir sitja, verða undir og munu að lokum að leggja upp laupana. Það þýðir að bæði stjórnendur og starfsfólk þurfa að hafa til að bera stafræna hæfni og framfarahugarfar.
Yfirfært á íslenskan veruleika þá er þetta bil enn ískyggilegra og hættan mjög raunveruleg því að hinumegin eru ekki eingöngu tæknivædd íslensk fyrirtæki, heldur risastórir alþjóðlegir tæknirisar sem draga í auknum mæli til sín viðskipti Íslendinga, án þess að skilja nokkuð eftir í þjóðarbúinu. Þessi fyrirtæki greiða hér litla sem enga skatta og þau skapa hér engin störf.
Brúarsmíði – allir njóti ávinningsins
Að þessu sögðu er það ljóst að brúa þarf stafræna bilið hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða einfaldlega bilið á milli Íslands og annarra þjóða, til að við fáum öll notið ávinningsins sem fylgir stafrænni umbreytingu. Þar má enginn verða útundan. Að óbreyttu drögumst við á endanum það mikið aftur úr að bilið verður ekki brúað.
Þessi brú yfir stafræna bilið verður ekki byggð nema með samstilltu átaki. Svo stórt samfélagslegt verkefni kallar á samstarf og samstöðu þvert á þjóðfélagið. Hin Norðurlöndin hafa náð gríðarlega góðum árangri í stafrænni umbreytingu og ljóst að víðtækt samstarf er þar algjört grundvallaratriði. Til að brúa stafræna hyldýpið þarf samstarf atvinnulífs og vinnumarkaðar, samstarf hins opinbera og einkageirans, samstarf við háskólasamfélagið og menntageirann eins og hann leggur sig. Samstarf um verkefni sem varðar samfélagið allt.
Komum okkur að verki – saman!
Samtal okkar við stjórnvöld hefur verið mjög jákvætt og eindreginn stuðningur við verkefnið. Nú er hins vegar kominn tími til að láta hendur standa fram úr ermum svo hefja megi brúarsmíðina.
Við aðra í samfélaginu sem vilja vinna að þessu mikilvæga verkefni með okkur segjum við einfaldlega, komið fagnandi. Hafið samband. Þið getið fundið frekari upplýsingar um verkefnið og hugmyndirnar að baki því á stafraent.is.
Í sameiningu brúum við stafræna bilið.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR og Jón Ólafur Halldórsson formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.