Samkeppnisréttarstefna SVÞ

– Samtaka verslunar og þjónustu

 

I. Almennt
Tilgangur samkeppnisréttarstefnu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu er að tryggja fagleg og
gegnsæ vinnubrögð í starfsemi samtakanna og fyrirbyggja háttsemi sem brotið gæti gegn
ákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005. Samkeppnisstefna þessi skal vera aðgengileg á
heimasíðu SVÞ og skal henni jafnframt dreift til nýrra aðildarfyrirtækja og allra fulltrúa sem
starfa á vettvangi samtakanna.

SVÞ leggja ríka áherslu á að fyrirtæki ástundi öfluga og sanngjarna samkeppni og virði í
hvívetna ákvæði samkeppnislaga. Að sama skapi gera SVÞ ríkar kröfur hvað varðar eftirfylgni
með samkeppnislögum gagnvart eigin starfsemi samtakanna. Samkeppnislög eru sett til að efla
virka samkeppni og vinna gegn viðskiptaháttum sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að
samkeppni sé raskað eða hún takmörkuð. Í starfsemi sinni vilja SVÞ stuðla að virkri samkeppni
þannig að tryggja megi hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins, til ábata fyrir
neytendur, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni. Stjórn og stjórnendur SVÞ bera ábyrgð á því
að kynna fyrir aðildarfyrirtækjum og starfsmönnum samtakanna samkeppnisréttaráætlun SVÞ
og sjá til þess að henni sé fylgt í hvívetna. Verði aðilar uppvísir að því að brjóta gegn
samkeppnislögum í störfum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi kann því að fylgja ábyrgð
samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga, þ.m.t. refsiábyrgð einstaklinga.

SVÞ árétta mikilvægi þess að allt starf á vettvangi samtakanna, hvort sem það er starfsemi
stjórnar, skrifstofu SVÞ eða í nefndum eða ráðum á vegum samtakanna, sé ávallt framkvæmt í
anda samkeppnislaga. Tekur þetta einnig til þeirra ráðgjafa og verkefnaráðinna starfsmanna
SVÞ. Það sama á við um alla stefnumótum eða áætlunargerð á vettvangi SVÞ sem skal ávallt
vera unnin í samræmi við samkeppnislög. Eftirfylgni með ákvæðum samkeppnislaga er því ekki
valkvæð í starfsemi SVÞ heldur ófrávíkjanleg skylda.

II. Aðild
Skilyrði fyrir inngöngu í SVÞ skulu vera gegnsæ, málefnaleg og hlutlaus og skal gert grein fyrir
þeim í samþykktum samtakanna á hverjum tíma. Skal öllum er uppfylla skilyrðin heimil
innganga í samtökin enda hafi viðkomandi sótt um aðild og greiði tilskilin aðildargjöld.

III. Samskipti
Hagsmunagæsla samtaka fyrirtækja er í eðli sínu ekki andstæð samkeppnislögum. Óumdeilt er
að starfsemi samtaka fyrirtækja getur verið gagnleg og haft jákvæð áhrif á mörkuðum, t.d. þegar
slík samtök annast hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum í því skyni að bæta almenn
rekstrarskilyrði fyrirtækja. Þátttaka í starfi SVÞ felur því í sér miðlun á upplýsingum og reynslu
og þátttöku í umræðu um sameiginleg hagsmunamál aðildarfyrirtækja. Samskipti milli
fyrirtækja skal þó ávallt hagað þannig tryggt sé að ákvæði laga séu virt og að á engan hátt
stuðlað að samráði eða samstilltum aðgerðum í skilningi samkeppnislaga.

Í skilningi samkeppnislaga er litið á samskipti fyrirtækja á vettvangi samtaka fyrirtækja með
sambærilegum hætti og öll önnur samskipti. Samskipti á vettvangi samtakanna skulu því aldrei
fela í sér tilvísanir til verðs eða upplýsingaskipta um markaði eða viðskiptavini eða annað sem
rétt er að leynt skuli fara milli samkeppnisaðila.

Sem hluta af þessari samkeppnisréttarstefnu mun stjórn setja sér leiðbeiningar fyrir fundi og
samskipti á vegum SVÞ sem skulu höfð til hliðsjónar á fundum stjórnar samtakanna sem og
fundum ráða og nefnda sem starfa á vettvangi samtakanna.

III. Öflun og miðlun upplýsinga
Við öflun og miðlun upplýsinga á vettvangi SVÞ skal í hvívetna gætt að trúnaði og verklag
ávallt vera með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að viðkvæmar eða sérgreinanlegar
upplýsingar einstakra fyrirtækja geti borist í hendur annarra aðildarfyrirtækja eða þriðja aðila.

Við miðlun upplýsinga, hvort heldur er í ræðu eða riti, beint eða óbeint, skal þess einnig ávallt
gætt að ekki sé miðlað upplýsingum um viðskipti, viðskiptahætti eða markaðshlutdeild
einstakra fyrirtækja. Þegar unnið er að rannsóknum á einstökum atvinnugreinum svo og
sögulegum upplýsingum um framleiðslu, sölu eða markaðshlutdeild skal þess því ávallt gætt að
um sé að ræða samtölur fyrir skilgreinda hópa fyrirtækja og að ekki sé unnt að bera kennsl á
upplýsingar einstakra fyrirtækja.

IV. Fræðsla
Starfsmönnum SVÞ og fulltrúum félagsmanna sem taka þátt í stjórnum eða nefndum á vegum
samtakanna skal standa til boða fræðsla um samkeppnismál í samræmi við fræðsluáætlun
samtakanna. Sama á við um ráðgjafa eða aðra aðila sem taka að sér verk fyrir SVÞ.

Starfsmönnum SVÞ og fulltrúum félagsmanna sem taka þátt í stjórnum eða nefndum á vegum
samtakanna skal jafnframt tryggt aðgengi að sérfræðiráðgjöf komi upp samkeppnisréttarleg
álitaefni í tengslum störf þeirra í þágu samtakanna.

SVÞ leggja áherslu á að stuðla að umræðu um mikilvægi samkeppnismála í innra starfi sínu
sem og á opinberum vettvangi.