FAGGILDINGARHÓPUR

Hagsmunahópur faggiltra fyrirtækja innan SVÞ var stofnaður haustið 2011. Hlutverk hópsins er að auka skilning almennings, atvinnulífs og hins opinbera á inntaki faggildingar og kostum þess að beita henni við ýmsa eftirlits- og prófunarstafsemi.

Stærstur hluti þeirra skoðunarstofa sem hlotið hafa faggildingu hér á landi hefur stofnað sérstakan hagsmunahóp innan SVÞ. Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalda á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni, s.s. að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi.

Faggiltar skoðunar- og prófunarstofur eru aðilar sem starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka og hafa starfað hérlendis í tvo áratugi á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu. Faggilding gegnir mikilvægu hlutverki og hefur skírskotun víða í samfélaginu ekki síst með það sem snýr að öryggismálum hvers konar. Faggilding gegnir mikilvægu hlutverki og hefur skírskotun víða í samfélaginu ekki síst með það sem snýr að öryggismálum hvers konar. Faggiltar skoðunarstofur hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Hagsmunahópurinn vill auka skilning almennings, atvinnulífs og hins opinbera á inntaki faggildingar og kostum þess að beita henni við ýmsa eftirlits- og prófunarstafsemi. Markmið hópsins er að treysta í sessi faggilta skoðunarstarfsemi sem fyrsta valkost í eftirliti hér á landi. Það verður að mati hópsins best gert með opinni samræðu og mótun skýrrar stefnu á sviði eftirlits með faggildingaraðferðina í öndvegi. Fyrir því mun hópurinn beita sér í störfum sínum.