Hagsmunagæsla SVÞ í janúar 2026: Þingmál, skattahækkanir og tækifæri til einföldunar
Janúar 2026
Ný ríkisstjórn
Að ákveðnu leyti eru hagsmunaverðir enn að jafna sig eftir fyrri hluta þingvetrar og aðdraganda hans. Ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í desember 2024 og birti tiltölulega stutta stefnuyfirlýsingu með markmiðum og 23 aðgerðum. Fljótlega í kjölfarið kallaði stjórnin eftir hagræðingartillögum frá almenningi og í haust voru drög að atvinnustefnu sett í samráðsferli.
Hlutverk hagsmunavarða
Það skiptir hagsmunavörðinn ekki grundvallarmáli hver er við stjórnartaumana því verkefnið er ávallt það sama; að gæta almennra hagsmuna allra þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að SVÞ. Eitt yfirlýstra markmiða nýrrar ríkisstjórnar er að vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Framan af var orðræða ríkisstjórnarinnar slík að örlaði á bjartsýni. Stjórnarliðar voru ferskir og virkuðu atorkumiklir sem var ákveðin breyting frá því langdregna eftirpartísástandi sem ríkti í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Þingmál sem snerta atvinnulífið beint
Núverandi ríkisstjórn hefur í ýmsu tilliti haldið áfram með mál sem voru í vinnslu í tíð síðustu ríkisstjórnar og snerta hagsmuni aðildarfyrirtækja SVÞ. Þar á meðal eru kílómetragjöld á ökutæki, breytingar á raforkulögum, bókmenntastefna, breytingar á lögum um sjúkratryggingar, breytingar á lyfjalögum m.t.t. lyfjaskorts, og innleiðing ETS 2-kerfisins. Önnur mál tók nýja ríkisstjórnin sjálf upp, þ. á m. afnám breytinga á ákvæðum búvörulaga (afurðastöðvar í kjötiðnaði), breytingu á húsaleigulögum (bann gegn vísitölutengingu leiguverðs) og hækkun veiðigjalda.
Umsagnir, fundir og eftirfylgni SVÞ
Miðað við upplýsingar í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar gerði skrifstofa SVÞ ráð fyrir að síðasta haust mundi ríkisstjórnin leggja fram 40 þingmál á Alþingi sem gætu snert hagsmuni aðildarfyrirtækja. Þau komu ekki öll fram en skrifstofan sendi Stjórnarráðinu og Alþingi þó 37 umsagnir þar sem bent var á þætti sem betur þyrftu að fara. Mörgum málanna var fylgt eftir á fundum með fastanefndum Alþingis og ráðuneytum auk annarra funda og símtala.
Breytt verklag á Alþingi – veikara aðhald fastanefnda
Með tilliti til hagsmunagæslunnar varð töluverð breyting með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar og henni má lýsa þannig að ráðherrar ráða niðurstöðum mála en aðrir Alþingismenn ekki.
Það er alvarleg staða þar sem þingmenn í fastanefndum Alþingis hafa m.a. gegnt því mikilvæga hlutverki að gaumgæfa það sem frá ríkisstjórninni kemur og leggja til breytingar ef svo ber undir. Þegar ráðherrar ráða niðurstöðunni verða minni líkur á að ágallar á þingmálum verði lagfærðir við þinglega meðferð og mat ráðherra á áhrifum þingmála verður ráðandi, jafnvel þó matið byggi á veikum forsendum. Samskipti við ráðherra í nýju ríkisstjórninni hafa verið misjöfn. Til dæmis hefur umhverfis-, orku– og loftslagsráðherra hefur t.d. boðið upp á ríkt samtal, ráðherrar Viðreisnar ekki verið óviðræðuhæfir en ráðherrar Flokks fólksins lokuðu sig af.
Í litlu samfélagi þar sem þekking er dreifð og liggur víða er virkt samtal við atvinnulífið lykilatriði. Þó einhver merki séu e.t.v. tekin að koma fram um að stjórnarþingmenn í fastanefndum séu meðvitaðri en áður um hlutverk sitt þurfa þeir að vakna til betri vitundar um að það sem kemur frá ráðuneytunum er ekki fullkomið.
Skattar, gjöld og aukin aðgæsla
Miðað við þingmálaskrána munu SVÞ taka fjölda mála til skoðunar á fyrri hluta þessa árs. Við verðum á varðbergi m.a. þar sem það er nokkuð ljóst að ríkisstjórnin er ekki hrædd við að hækka skatta.
Í þessu samhengi má t.d. horfa til fréttaflutnings frá haustinu af matseðli skattabreytinga í ferðaþjónustu og radda úr ríkisstofnunum þar sem m.a. hefur verið gefið til kynna að mögulegt sé að skattleggja Íslendinga niður í kjörþyngd.
Tækifæri til einföldunar og skilvirkari stjórnsýslu
Að endingu er rétt að taka fram að samkvæmt stjórnarsáttmálanum hyggst ríkisstjórnin einfalda stjórnsýslu og hagræða í ríkisrekstri. Nokkur merki í þá veru hafa komið fram, einkum í formi áforma um sameiningu ríkisstofnana. Þá hafa tveir ráðherrar boðað róttækar breytingar á fyrirkomulagi matvæla-, hollustuhátta– og mengunarvarnareftirlits, sem er vel. Það eru því til staðar tækifæri til að koma á framfæri við ríkisstjórnina hugmyndum um einföldun regluverks og framkvæmdar sem verður að nýta.
Áskorun til fyrirtækja: Látið vita af tækifærum
Þið, fyrirtækin, eruð í bestum færum til að koma auga á tækifæri til einföldunar regluverks og framkvæmdar. Sendið mér línu og tryggið að við séum um þau meðvituð.
6. janúar 2026
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins
benedikt(hjá)svth.is