saman erum við sterkari
Velkomin(n)! Við erum þitt fólk hjá SVÞ:

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri 

Andrés er lögfræðingur að mennt og hefur áratuga reynslu af hagsmunagæslu. Hann byrjaði ferilinn sem lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, bjó og starfaði svo í Brussel um sex ára skeið, þar af þrjú ár hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Andrés var framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna áður en hann kom til SVÞ. 

Það er alltaf hægt að heyra í Andrési ef þér liggur eitthvað á hjarta sem þú telur að samtökin eigi að vera að vinna að. Regluleg tengsl við félagsmenn eru mikilvæg til þess að vita hvað helst brennur á atvinnurekendum í verslun og þjónustu á hverjum tíma. 

Tölvupóstur: andres@svth.is 

Sími: 820 4500 

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur 

Benni er lögfræðingurinn þinn hjá SVÞ. Hann fylgist grannt með áformum stjórnvalda svo við vitum af öllu sem haft getur áhrif á aðildarfyrirtæki SVÞ. Þá sér Benni m.a. um að skrifa stjórnvöldum og Alþingi erindi til að vekja athygli þeirra á hagsmunum félagsmanna og fylgir þeim svo eftir á fundum. Hann er líka til taks ef spurningar vakna og veitir félagsmönnum lögfræðilega ráðgjöf. Benni vann áður á Alþingi og í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og þekkir því starfsemi stjórnvalda mæta vel. Hann getur, ef svo ber undir, veitt þér upplýsingar um hvar og hvernig sé best að fá úr álitamálum skorið.   

Þú getur alltaf haft samband við Benna beint: 

Tölvupóstur: benedikt@svth.is  

Sími: 864 9136 

Sara Dögg Svanhildardóttir, skrifstofustjóri og verkefnastjóri fræðslu- og menntamála 

Sara Dögg er kennari að mennt með viðbótarnám í verkefnastjórnun og mannauðsmálum. Sara Dögg var skólastjóri við tvo grunnskóla Hjallastefnunnar um langt skeið og síðar verkefnastjóri yfir grunnskólastarfi Hjallastefnunnar. Hún var einnig ráðgjafi hjá Tröppu ehf. og kom að uppbyggingu nýs sjálfstætt starfandi grunnskóla fyrir fötluð börn.

Sara er líka formaður Samtaka sjálfstæðra skóla sem starfa innan SVÞ.

Hafðu samband við Söru Dögg t.d. ef þú hefur spurningar varðandi aðildina þína eða menntamálin. Og ef þú ert ekki viss um hvern þú átt að tala við innan SVÞ, þá er alltaf gott að byrja á Söru sem getur þá vísar þér á réttan stað.

Tölvupóstur: saradogg@svth.is

Sími: 899 2876

Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri og verkefnastjóri – stafræn þróun

Þóranna hóf ferilinn sem leik- og söngkona áður en hún vatt sínu kvæði í kross, fór í MBA nám, kolféll fyrir markaðsmálunum og hefur verið í þeim frá því fljótlega upp úr aldamótum. Hún sér um markaðs- og kynningarmál samtakanna og fræðslu- og viðburðadagskrána ásamt Söru Dögg. Hún er líka verkefnastjóri yfir því sem SVÞ gerir í tengslum við stafræna þróun, sem er mikið áherslumál innan samtakanna. Hafðu samband við Þórönnu t.d.ef þú hefur tillögur fyrir fræðsludagskrána, hefur áhuga á að vera með fyrirlestur eða kennslu hjá samtökunum eða vilt vita meira um það sem samtökin eru að vinna að í stafrænu málunum.  

Tölvupóstur: thoranna@svth.is 

Sími: 841 5800 

Við hlökkum til að vera í góðu sambandi.

Bestu kveðjur, 

SVÞ fólkið

SVÞ getur aðstoðað þig við...

Það er oft sem félagsmenn átta sig ekki alveg á því hvað það er sem SVÞ getur aðstoðað við. Stundum er það ákveðið mál sem verður til þess að gengið er í samtökin eða það var einhver annar en þú sem tók ákvörðunina og þú ert ekki alveg nógu vel inni í málunum. Í þessum pósti langar okkur að gefa þér grófa yfirsýn yfir hvað SVÞ getur gert fyrir þitt fyrirtæki og í næstu póstum köfum við aðeins dýpra í helstu atriði.

Það má segja að þau mál sem samtökin geta aðstoðað aðildarfyrirtæki sín með falli almennt í þrjá flokka: 

 • Almenn hagsmunagæsla: Við fylgjumst með því sem er að gerast hjá stjórnvöldum og tryggjum að hagsmunum aðildarfyrirtækja okkar sé gætt t.d. með umsögnum um lagafrumvörp og annað slíkt. Við hvetjum einnig aðildarfyrirtæki til að vekja athygli okkar á því sem bæta þarf úr svo við getum gengið í málin. 
 • Aðstoð við einstaka aðildarfyrirtæki: Við getum aðstoðað aðildarfyrirtæki okkar við einstök mál – meira um það síðar.
 • Vinnuréttar- og kjaramál: Í gegnum SVÞ er fyrirtækið þitt aðili að Samtökum atvinnulífsins sem veitir þjónustu á sviði vinnuréttar og kjaramála. 
Almenn hagsmunagæsla SVÞ

Í framhaldi af síðasta pósti frá okkur langar okkur að segja þér betur frá kjarnastarfsemi samtakanna, sem er hagsmunagæsla. Við erum jú hagsmunasamtök og það felst einkum í því að gæta hagsmuna aðildarfyrirtækja okkar gagnvart opinbera geiranum. Hvernig gerum við það? Við gerum það með ýmsum leiðum…

Starfsmenn SVÞ fylgjast náið með því sem er í gangi hjá stjórnvöldum, þ.á.m. öllum lagafrumvörpum sem snerta félagsmenn SVÞ með einhverjum hætti.  Samtökin senda umsagnir um lagafrumvörp, bæði þegar þau eru til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda og þegar þau hafa verið lögð fram á Alþingi. Einnig og ekki síður felst vinna samtakanna í því að stuðla að breytingum á gildandi lögum og reglum, til hagsbóta fyrir félagsmenn. Eftirfylgni með málum felst einnig í reglubundnum fundum með embættismönnum og öðrum fulltrúum stjórnvalda til að tala máli okkar félagsmanna og tryggja að ekki halli á þá. Þetta gerum við allt í nánu samráði við þau aðildarfyrirtæki sem málin varða, bæði í gegnum faghópastarfið okkar – sem við munum fara betur yfir í síðari pósti – og með beinu samtali við forsvarsmenn fyrirtækjanna, á borð við þig.

Meðal helstu hagsmunamála eru: 

 • Að styrkja samkeppnishæfni íslenskra verslunar- og þjónustufyrirtækja gagnvart alþjóðlegri samkeppni. 
 • Að berjast fyrir frjálsum viðskiptum og að alþjóðlegir samningar og skuldbindingar séu virt. 
 • Tilfærsla á verkefnum frá hinu opinbera til einkaaðila. 
 • Jafnræði milli innlendra og erlendra fyrirtækja þegar kemur að opinberum innkaupum. 
 • Takmörkun stjórnsýslubyrði, sem felst m.a. í einföldun regluverks og lækkun skatta og gjalda (s.s. fasteignaskatta og tryggingagjalds). 

Það er mikilvægt að við séum í góðu sambandi og vinnum vel saman til að við getum sem allra best gætt þinna hagsmuna. Ef að þú veist t.d. af einhverju sem þarf að vinna í og veist ekki til þess að við séum komin í málið, endilega sendu okkur línu eða hringdu til að láta okkur vita og ræða málin. Við vinnum fyrir þig og þú getur alltaf sett mál á dagskrá.

Við hlökkum til samstarfsins!

Einstök mál aðildarfyrirtækja

Í síðasta pósti fjölluðum við um almenna hagsmunagæslu SVÞ fyrir aðildarfyrirtæki. En stundum varða málin bara þitt fyrirtæki en ekki alla greinina og þá getum við líka oft aðstoðað.

Við aðstoðum fyrirtækin okkar m.a. í samskiptum við stjórnvöld og hjálpum þeim að finna farveg fyrir mál innan stjórnsýslunnar. Hér fyrir neðan eru bara örfá dæmi til að gefa þér hugmynd um hverskonar mál við getum aðstoðað þitt aðildarfyrirtæki við:  

 • Ráðgjöf vegna ýmissra samskipta við hið opinbera.  

 • Ráðgjöf vegna fjárframlaga hins opinbera. 

 • Samskipti við hið opinbera til að knýja fram breytingar á lögum og reglum, s.s. á sviði skatta og gjalda.  

 • Samskipti við ráðuneyti um efnisákvæði reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla.  

 • Yfirferð þjónustusamninga við opinbera aðila.  

 • Ráðgjöf á sviði opinberra innkaupa, s.s. greiningar á annmörkum í innkaupaferli.   

 • Samskipti við samkeppniseftirlitið, t.d. vegna kvartana eða málsmeðferðar þar sem aðildarfyrirtæki telur hafa verið á sér brotið.  

 • Samskipti við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra vegna sóttvarnarráðstafana og stjórnvaldsfyrirmæla.   

 • Samskipti við Umhverfisstofnun vegna merkinga á vörum.  

 • Ráðgjöf vegna þjófnaðarmála í verslunum.  

 • Samskipti við heilbrigðiseftirlit vegna næringar- og heilsufullyrðinga.  

 • Ráðgjöf vegna samninga við Sjúkratryggingar Íslands.  

 • Samskipti við ráðuneyti vegna fyrirkomulags ökunáms.  

 • Ráðgjöf vegna samskipta sjálfstæðra skóla við sveitarfélög.   

 • Ráðgjöf vegna fjárframlaga sveitarfélaga til sjálfstæðra leikskóla.  

 • Greiningar á samningsskuldbindingum.  

 • Ráðgjöf um uppsagnir á samningum.  

 • Yfirferð samstarfssamninga um sölu á þjónustu.  

 • Samskipti við Neytendastofu vegna umsókna.  

 • Ráðgjöf um meðferð á persónuupplýsingum.  

 • Ráðgjöf vegna ákvæða laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  

 • Samskipti við Hagstofu Íslands vegna birtingar tölfræðiupplýsinga.  

 • Og svo mætti lengi telja…  

Ef þú ert ekki viss hvort við erum rétti aðilinn til að aðstoða þitt aðildarfyrirtæki, ekki hika við að vera í sambandi. Við munum alltaf í allra minnsta lagi gera allt sem við getum til að vísa þér rétta leið.

Vinnuréttar- og kjaramál

SVÞ eru ein aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins (SA).

Með aðild þinni að SVÞ, og þar með SA, fær fyrirtæki þitt aðgang að vinnumarkaðssviði SA sem veitir alla sérfræðiþjónustu í vinnumarkaðs- og vinnuréttarmálum. SA eru einnig í forsvari fyrir aðildarfyrirtæki í vinnudeilum og ágreiningsmálum gagnvart stéttarfélögum. Sem félagsmaður hefur þú aðgang að lögfræðingum vinnuréttarsviðs sem veitt geta margvíslega þjónustu. Þú getur séð meira um það hér.

Að auki hefurðu aðgang að lokuðu efni á Vinnumarkaðsvef SA í gegnum Mínar síður en þar geturðu fundið mikið af gagnlegum upplýsingum, auk sniðmáta fyrir gögn á borð við samninga, uppsagnir o.fl. Meira um Mínar síður í næsta pósti.

Ef þú hefur ekki þegar fengið aðgang að Mínum síðum, láttu vita með því að senda póst á minarsidur@husatvinnulifsins.is og óska eftir að vera gerður að tengilið fyrir þitt aðildarfyrirtæki.

Þínar síður hjá SA og SVÞ

Með aðild að SVÞ og SA færðu aðgang að Mínum síðum (ja, þínum síðum 😉) þar sem þú getur haft yfirsýn yfir ýmislegt sem snýr að aðild fyrirtækisins þíns. Þar getur þú m.a.: 

 • Séð yfirlit yfir skráða tengiliði fyrirtækisins þíns og uppfært þá eftir þörfum. 
 • Séð stöðu félagsgjalda bæði hjá SVÞ og SA. 
 • Haft yfirsýn yfir þau mál sem þú ert með í gangi hjá samtökunum. 
 • Sent inn fyrirspurn hvort sem er til SVÞ eða SA.
 • O.fl. 

Og þaðan geturðu líka farið inn á félagasvæðið á SVÞ vefnum! Meira um það síðar.  

Það er mjög mikilvægt að tryggja að tengiliðir fyrirtækisins þíns séu rétt skráðir á Mínum síðum til að tryggja að samskipti séu sem skilvirkust. Þú ferð í gegnum Mínar síður til að fá aðgang að læstu efni á Vinnumarkaðsvef SA og á félagasvæði SVÞ á vefnum. 

Ef þú lendir í vandræðum með Mínar síður, sendu línu á minarsidur@husatvinnulifsins.is til að fá aðstoð. 

Fjölbreytt fræðslu- og viðburðadagskrá

Sem félagsmaður í SVÞ hefurðu aðgang að fjölda viðburða, fræðslu- og upplýsingafunda. Dagskrá starfsársins hefst almennt seinnipartinn í ágúst og stendur fram í júní, með pásu yfir hátíðarnar. 

Þú finnur viðburðadagatal á forsíðu vefsins en við sendum líka tölvupóst um viðburði framundan og látum vita á samfélagsmiðlum.  

Viðfangsefnin eru fjölmörg og þú getur fengið nokkuð góða mynd af því sem í boði hefur verið með því að kíkja á færslur á svth.is/fraedsla. Stóru áherslumálin þessi misserin eru stafræn umbreyting og umhverfis- og sjálfbærnimál en sem dæmi um önnur efnistök má nefna markaðssetningu, þjónustu, netglæpi, varnir gegn þjófnaði, vellíðan á vinnustað, öryggi á vegum, breytingar á lögum og reglugerðum, peningaþvætti, greiðslumiðlun, máltækni o.fl. 

Fræðsludagskráin fer ýmist fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35 eða á netinu, og þegar við erum í húsi er viðburðum almennt streymt líka svo að sem flestir geti tekið þátt. Þegar við höfum heimild til og möguleika á, tökum við upp viðburðina og gerum þá aðgengilega félagsmönnum á félagasvæðinu á innri vef SVÞ (meira um það síðar). 

Það er mikilvægt að félagsmenn láti í sér heyra varðandi hvað þeir vilja sjá á fræðslu- og viðburðadagskrá samtakanna. Ekki hika við að senda tölvupóst eða bjalla ef þú hefur tillögu að efnistökum, öflugum aðilum til að vera með fyrirlestra eða námskeið eða hvað annað sem þér dettur í hug varðandi dagskrána. 

Láttu til þín taka í gegnum faghópastarf samtakanna

SVÞ eru til fyrir þig sem forsvarsaðila í aðildarfyrirtæki og félagsmanns í samtökunum. Við fylgjumst grannt með stjórnvöldum og umhverfinu almennt, en það eruð þið félagsmennirnir sem setjið málin á dagskrá. Utan stjórnarstarfa er þátttaka í faghópastarfinu öflugasta leiðin til að hafa áhrif á starf samtakanna og tryggja að samtökin vinni að ýmsum sérhagsmunum. 

Hvað eru faghópar? 

Faghópar eru starfshópar félagsmanna um afmörkuð mál. Það má segja að þeir séu grasrótin í SVÞ.  

Um hvað fjalla faghópar? 

Hóparnir geta ýmist verið fyrir ákveðnar atvinnugreinar, t.d. Flutningasvið, Hagsmunahópur bókhaldsstofa eða Faggildingarhópur, eða um ákveðin málefni, t.d. Hópur um opinber innkaup eða Stafræn viðskipti. Einnig starfa samtök innan samtakanna, s.s. Samtök sjálfstæðra skóla og Samtök heilbrigðisfyrirtækja. 

Hvaða faghópar eru til? 

Þú getur séð yfirlit yfir starfandi hópa innan samtakanna á vefsíðunni okkar hér.  Hver sem er innan samtakanna getur haft frumkvæði að því að stofna faghóp um hvaðeina sem þurfa þykir.  

Hvernig er fyrirkomulag faghópanna? 

Það eru ákveðin formsatriði sem þurfa að vera til staðar í kringum faghóp, en að mestu leyti fer starfið algjörlega eftir óskum þeirra félagsmanna sem að honum standa og stjórnar hópsins, sem kosin er á stofnfundi og síðan reglulega eftir það. Eftirtalin atriði eru í föstum skorðum. 

 • Stofna þarf faghóp á formlegum stofnfundi þar sem lagðar eru fram samþykktir og þær samþykktar, stjórn kosin og gerð formleg stofnfundargerð. 
 • Í stjórn faghóps eru ýmist þrír eða fimm aðilar sem allir þurfa að starfa fyrir aðildarfyrirtæki innan samtakanna. 
 • Allir stjórnarmeðlimir í faghóp þurfa að kynna sér samkeppnisréttarstefnu SVÞ og samkeppnisreglur, og skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu. 
 • Faghópar geta fengið sér Microsoft Teams svæði á vegum SVÞ, til að halda utan um sín mál og halda fjarfundi. 

Að öðru leyti ákvarðar stjórn hópsins starfið s.s. hversu oft er fundað, hvar og hvernig (t.d. í fjarfundi), þau mál sem hópurinn fjallar um og beitir sér fyrir, hvort og hvernig staðið er að viðburðum o.s.frv. 

Hvað gerir starfsfólk SVÞ í tengslum við faghópana? 

Starfsfólk SVÞ aðstoðar við að koma faghópnum á laggirnar, kynnir hann innan samtakanna og heldur utan um hópinn. 

Almennt er svo einn starfsmaður SVÞ aðaltengiliður og starfsmaður hópsins og heldur utan um hagnýta hluti eins og fundarboðun, fundarritun og slíkt. 

Starfsfólk SVÞ vinnur svo að þeim hagsmunamálum sem hóparnir setja á dagskrá, bæði almennt í starfi SVÞ og sérstaklega fyrir hvern hóp. 

Eru faghópar bara fyrir framkvæmdastjóra aðildarfyrirtækja? 

Í faghópum getur verið hver sá sem starfar innan aðildarfyrirtækis innan samtakanna og á erindi í þann faghóp. Það geta verið stjórnendur, millistjórnendur eða almennir starfsmenn, allt eftir því hvað við á hverju sinni. 

Hvernig stofna ég faghóp? 

Ef þú hefur áhuga á að stofna faghóp er best að hafa samband við skrifstofu SVÞ og við förum yfir málin með þér.  

Hvernig get ég orðið virk/ur innan starfandi faghóps? 

Faghóparnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Best er að byrja á því að fá upplýsingar um faghópinn hjá starfsfólki SVÞ sem þá getur sett þig í samband við stjórn hópsins varðandi mögulega aðkomu að starfi hans. Almennt er besta leiðin að bjóða sig fram til stjórnar hópsins á næsta aðalfundi hans. 

Viltu vita meira um faghópastarfið? Hafðu samband við okkur og tökum spjall í símann eða yfir kaffibolla í Borgartúninu (svth@svth.is og 511 3000).  

Félagasvæði á innri vef SVÞ

Innra svæði á vef SVÞ er eingöngu ætlað fyrir félagsmenn. Þar hefur þú aðgang að ýmsu efni og við erum sífellt að bæta við. 

Meðal þess sem þú finnur á félagasvæðinu eru upptökur frá fyrirlestrum og viðburðum og upplýsingar um aðila sem geta aðstoðað þig, m.a. í hlutum eins og umhverfismálum.  

Meginefnisflokkarnir eru í samræmi við áherslumál samtakanna, stafræn umbreyting og umhverfis- og sjálfbærnimál, en einnig má finna fjölmargt annað. 

Svæðið er nýtt og stefnan er að nýta það sífellt betur til að geta veitt ykkur, félagsmönnum okkar, sífellt betri stuðning og þjónustu. Við tökum öllum hugmyndum og tillögum fagnandi að því hvernig það getur nýst sem allra best svo ekki hika við að hafa samband ef ykkur dettur eitthvað sniðugt í hug. 

Einnig hvetjum við félagsmenn sem luma á gagnlegum upplýsingum og efni sem nýst getur öðrum til að setja sig í samband við okkur varðandi að koma því inn á innra svæðið. 

Til að komast inn á innra svæðið er farið í gegnum Mínar síður (atvinnulif.is) með rafrænum skilríkjum og þegar inn er komið má finna hlekk á félagasvæðið á vinstri stikunni. Þú getur séð leiðbeiningamyndband hér.

https://svth.is/fa-adgang/

Ertu ekki komin/n með aðgang að Mínum síðum? Hafðu þá samband: minarsidur@husatvinnulifsins.is – okkar fólk bjargar því hið snarasta. 🙂 

Hvernig getur þú verið virk/ur í starfi SVÞ og haft áhrif?

Samtök eins og okkar eru ekkert án öflugra félagsmanna. Samtökin eru til fyrir ykkur en það eruð líka þið sem eruð drifkrafturinn og ráðið ferðinni. Sem félagsmaður í SVÞ eru margar leiðir fyrir þig að hafa áhrif á starf samtakanna og þau mál sem sett eru á dagskrá og unnið að. 

Hér er stutt yfirlit yfir helstu leiðir til að hafa áhrif. Þú ert síðan alltaf velkominn í spjall, hvort sem þú vilt bjalla eða kíkja við hjá okkur í Húsi atvinnulífsins.  

 • Faghópastarfið: Við höfum áður fjallað um faghópastarfið en grasrótarstarf faghópanna er það sem hefur einna helst áhrif á þau mál sem unnið er að. Ef þú vilt rifja upp í hverju það felst, geturðu smellt hér

 • Stjórn SVÞ: Á ársfundi samtakanna, sem almennt er haldinn í mars ár hvert, er kosið um þau stjórnarsæti sem laus eru hverju sinni, en stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Í stjórn sitja 7 manns. Kjörgengir eru starfsmenn aðildarfyrirtækja innan samtakanna. Auglýst er eftir framboðum þegar líða fer að aðalfundi og til að bjóða sig fram þarf einungis að senda tölvupóst á skrifstofuna og lýsa yfir framboði. Þú færð svo sendar frekari upplýsingar um þær upplýsingar sem þú þarft að senda inn og annað slíkt. 

 • Hafðu samband! Við erum hér fyrir þig og þú getur alltaf sent okkur tölvupóst eða bjallað (sjá netföng og símanúmer starfsmanna hér) og við getum fundið tíma til að setjast niður og fara yfir málin saman. 

Við hlökkum til að vera í góðu samstarfi og sambandi. 

Þekkir þú Litla Ísland?

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru stór hluti af íslensku atvinnulífi. Fjölmörg fyrirtæki innan SVÞ eru í þeim flokki. Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa næstum ¾ starfa hérlendis og greiða 60-70% launa í landinu. Því er mikilvægt að styðja vel við þau og efla þau til dáða.

Litla Ísland er vettvangur fræðslu, tengsla og samstarfs lítilla og meðalstórra fyrirtækja óháð atvinnugreinum. Að því standa SVÞ, SA, SAF, SI og SFF og eru aðilar að þessum samtökum jafnframt aðilar að Litla Íslandi.

Tilgangurinn með verkefninu er margþættur, svo sem að: 

 • Efla forvarnir og stuðla að bættu rekstrarumhverfi, m.a. með fræðslu um lykilþætti í rekstri.
 • Gæta hagsmuna og styrkja rödd lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnulífinu. 
 • Undirstrika mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnulífinu fyrir stjórnvöldum og almenningi. 
 • Vekja athygli almennings og stjórnvalda á félagsmönnum og fyrirtækjum þeirra. 
 • Stuðla að tengslamyndun og þekkingarmiðlun meðal eigenda og stjórnenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. 

Endilega kynntu þér Litla Ísland betur: 

Vefurinn: litlaisland.is

Facebook: Facebook.com/LitlaIsland

Facebook hópur: Facebook.com/groups/litlaisland.is 

Segðu okkur frá!

Við viljum vita af því hvað þú og þitt fólk eruð að gera, svo endilega sendið okkur línu þegar þið hafið frá einhverju að segja.

Þú spyrð þá kannski: „Eins og hverju?”

Við myndum t.d. gjarnan vilja deila á samfélagsmiðlunum efni á borð við eftirfarandi*: 

 • Ef þið eruð tilnefnd til eða vinnið til verðlauna á einhverju sviði. 
 • Ef einhver hjá ykkar skrifar gagnlega og áhugaverða grein sem átt getur erindi við aðra félagsmenn. 
 • Ef um ykkur er fjallað í fjölmiðlum eða tekið viðtal við ykkar fólk.  

Ef þið hafið frá einhverju gagnlegu eða fræðandi að segja sem hentað gæti sem fyrirlestur eða fyrir annarskonar viðburð á vegum samtakanna, þá er líka um að gera að vera í sambandi. Hvort sem innan ykkar raða leynast sérfræðingar á einhverju sviði sem deilt geta visku sinni, eða þið eruð að gera sérstaklega áhugaverða hluti sem vert er að segja frá, t.d. í umhverfismálum eða stafrænni þróun, þá fögnum við því að geta sýnt góðar fyrirmyndir úr verslunar- og þjónustufyrirtækjum innan okkar raða.

Við fögnum líka gagnlegu og góðu efni sem deila má ýmist eingöngu með félagsmönnum, t.d. á innra svæðinu á vefnum, eða víðar t.d. í gegnum opnu Facebook hópana okkar helgaða verslun eða stafrænni þróun.

Við hlökkum til að heyra frá ykkur! 

*vinsamlegast athugið þó að ef efnið er beinlínis í markaðs- eða auglýsingaskyni deilum við því ekki. Efnið þarf að vera á einhvern hátt áhugavert og/eða gagnlegt fyrir aðra. 

Sértilboð og vildarkjör

Vissir þú að aðildarfyrirtækjum og félagsmönnum hjá SVÞ bjóðast af og til sértilboð og vildarkjör frá öðrum aðildarfyrirtækjum?

Þegar eitthvað slíkt er í boði skellum því á vefinn hér: svth.is/vildarkjor, látum vita af því á samfélagsmiðlunum og, ef við á, í tölvupósti.

Vilt þú bjóða upp á sértilboð eða vildarkjör fyrir aðildarfyrirtæki og félagsmenn í SVÞ?

Hafðu þá samband við markaðs- og kynningarstjóra samtakanna sem skoðar málin með þér.

Svona fylgist þú best með!

Við leitumst við, eftir bestu getu, að veita þér upplýsingar og fróðleik sem gagnast þér og þínu fyrirtæki. Við erum sífellt að reyna að bæta okkur í því að tryggja að þú fáir þær upplýsingar sem henta þér og að aðrir innan fyrirtækisins þíns fái það sem hentar þeim, allt eftir því hvaða hlutverki hver og einn gegnir.

Til að gera þér kleift að fylgjast sem allra best með starfi samtakanna, og því sem við bjóðum upp á fyrir ykkur, notum við ýmsar leiðir og hvetjum þig til að fylgjast vel með þeim öllum. Svo að ekkert fari nú fram hjá þér er hér listi yfir helstu samskiptaleiðir, fyrir utan bein samskipti við starfsfólk með tölvupósti eða síma:

Vefsíðan – svth.is 

Hér finnurðu allt sem þú þarft að vita um SVÞ, fréttir af því sem er í gangi o.fl. Ef þú ekki finnur eitthvað hér, láttu okkur vita svo við getum þá mögulega bætt úr því. 😊

Félagasvæðið á svth.is 

Á innra svæðinu á vefnum er efni eingöngu ætlað félagsmönnum. Aðgangur er í gegnum Mínar síður (atvinnulif.is) þar sem þú skráir þig inn með þínum persónulegu rafrænu skilríkjum. Þú finnur svo hlekk inn á félagsvæðið í stikunni vinstra megin á skjánum (sjá leiðbeiningarmyndband hér). Ef þú ert ekki með aðgang að Mínum síðum, sendu línu á minarsidur@husatvinnulifsins.is, biddu um að gerast tengiliður og þú verður látin/n þig vita þegar aðgangurinn er orðinn virkur.

Tölvupóstur 

Tölvupóstur er meginsamskiptaleið samtakanna. Þegar þú ert skráður sem tengiliður fyrir fyrirtækið þitt skráist þú á tvo póstlista. Annarsvegar félagsmannalista sem eingöngu er notaður fyrir mikilvægar tilkynningar og upplýsingar. Þessi póstur er sendur á þann lista þar sem hann er hugsaður til að kynna þig, sem nýjan félagsmann, fyrir starfi samtakanna. Það er mjög mikilvægt að þú afskráir þig ekki af þessum lista. Hinsvegar ertu skráð/ur á almennan póstlista samtakanna. Á þann lista er sent mánaðarlegt fréttayfirlit, auk þess sem við látum vita af fræðslu og viðburðum og öðrum hlutum eftir því sem tilefni er til. Það er besta leiðin til að fylgjast vel með dagsdaglega.

Samfélagsmiðlar 

Samtökin eru á helstu samfélagsmiðlum og við hvetjum þig til að fylgja okkur þar. Facebook er án efa þar sem við erum virkust:

Facebook síða SVÞ: Facebook.com/samtok.vth

Facebook hópur helgaður verslun: Facebook.com/groups/svth.verslun
Hópurinn opinn og er ætlaður til að deila ýmsu efni sem tengist verslun sérstaklega. Þar sem verslun er töluvert afmarkaðra svið en þjónustustarfsemi þá vildum við hafa stað þar sem við gætum deilt verslunartengdu efni án þess að þurfa að demba því á öll aðildarfyrirtæki. 😉 Ef þú ert í verslunargeiranum (eða bara hefur áhuga á honum) endilega komdu og vertu með!

Facebook hópur helgaður stafrænu málunum: Facebook.com/groups/svth.stafraenn
Stafræn umbreyting, fjórða inðbyltingin, stafræn vegferð, þróun o.s.frv. varðar öll fyrirtæki í dag og mikil áhersla er lögð á það í starfi samtakanna að styðja við fyrirtækin okkar á þeirri vegferð. Sem hluta af því settum við upp opinn hóp helgaðan stafrænu málunum þar sem við getum deilt efni og skapað umræður um þau mál. Komdu og vertu með í að fjalla um þau mál sem snerta öll fyrirtæki – og í raun líf okkar allra!

Við erum líka á LinkedIn: Linkedin.com/company/svth

Og Twitter: Twitter.com/SvthIceland 

Fylgstu með!