Sjálfbærni – kvöð eða tækifæri?
Til að tryggja framtíðarviðskipti þurfa fyrirtæki að stunda heiðarlega viðskiptahætti og gera upplýsingamiðlun gagnsæja. Neytendur, með ungu kynslóðina í fararbroddi, taka í auknum mæli upplýsta ákvörðun við kaup á vörum og þjónustu og velja frekar samfélagslega ábyrg fyrirtæki. Fjárfestar gera að auki sífellt meiri kröfur um gagnsæjar og traustar upplýsingar á sjálfbærniþáttum og leggja áherslu á ábyrgar fjárfestingastefnur.
Tveir sérfræðingar í sjálfbærni ætla að svara því hvort sjálfbærni sé kvöð eða feli í sér tækifæri. Einnig verður spurningunni um það hvernig fyrirtækin geti tryggt að þau eigi samleið með ungu kynslóðinni svarað. Báðar hafa þær margra ára reynslu í að aðstoða fyrirtæki við stefnumótun og gerð samfélagsskýrslna með alþjóðlegum viðmiðum og stöðlum og tengingu við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðin.
Einnig munu fulltrúar þriggja vel valinna fyrirtækja sem sýnt hafa ábyrgð í verki á sviði samfélagsábyrgðar miðla reynslu sinni. Þau segja frá því hvernig þau hafa innleitt sjálfbærni í kjarnastarfsemi sinna fyrirtækja og hvernig þau standa að miðlun upplýsinga til hagaðila; þ.á.m. viðskiptavina og fjárfesta.
Fjárhagslegur og ímyndarlegur ávinningur fyrirtækja af sjálfbærni
Eva Magnúsdóttir, ráðgjafi og eigandi Podium ehf., talar um ávinning fyrirtækja af því að leggja áherslu á sjálfbærniþætti og með dæmisögum fer hún yfir ávinninginn, fjárhagslegan og ímyndarlegan.
Breytingar í rekstrarumhverfi og upplýsingagjöf
Viktoría Valdimarsdóttir, ráðgjafi og eigandi Ábyrgra lausna fjallar um breytingar í rekstrarumhverfi og upplýsingagjöf fyrirtækja þar sem leitast er við að nýta tækifæri sem felast í auknum kröfum og nýjum áherslum tengdum sjálfbærri þróun og samfélagslegri nýsköpun.
Reynslusögur úr atvinnulífinu:
Ásdís Björg Jónsdóttir, deildarstjóri samfélagsábyrgðar og gæðamála hjá Festi hf.
Sigurður B. Pálsson, forstjóri BYKO
Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, sérfræðingur í umbótastjórnun, Ölgerðinni
Fundarstjóri verður Fanney Karlsdóttir, skrifstofustjóri Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og verkefnastjóri í Norræna húsinu.
Fanney hefur starfað sem sérfræðingur í samfélagsábyrgð fyrir fyrirtæki, ráðuneyti og verið stjórnarformaður Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
Um Podium
Podium ehf. veitir stjórnendaráðgjöf og aðstoð við greiningu og mótun stefnu, innleiðingu og ímyndarráðgjöf. Podium tekur m.a. að sér að leiða fyrirtæki og sveitarfélög áfram í stefnumótun með sjálfbærni og samfélagsábyrgð að leiðarljósi og er lögð áhersla á umhverfisþætti, félagslega þætti og góða stjórnarhætti. Stefnumótun með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eru sérsvið Podium.
Um Ábyrgar lausnir
Ábyrgar lausnir ehf. aðstoðar fyrirtæki og sveitarfélög við að innleiða nýjar áherslur í stefnu þar sem umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru greindir og mældir samhliða fjárhagslegum þáttum. Fyrirtækið býður sérsniðin námskeið og þjálfun á alþjóða stöðlum og viðmiðum sem hafa verið aðlöguð að íslenskum kröfum um ófjárhagslega þætti í rekstri, ábyrgar fjárfestingar og græn verkefni. Sérfræðingar fyrirtækisins og samstarfsaðilar aðstoða við miðlun upplýsinga til hagaðila á greinargóðan og gagnsæjan hátt. Fyrirtækið vinnur að verkefnum á Íslandi, Þýskalandi og í Lúxemborg.
Podium og Ábyrgar lausnir eru aðildarfyrirtæki SVÞ.
SKRÁNING FER FRAM HÉR FYRIR NEÐAN