Um áratugaskeið hefur það verið stefna hins opinbera að útvista verkefnum í auknum mæli til einkaaðila og sjálfstætt starfandi verktaka. Enn sem komið er hafa aðgerðir ríkisins hins vegar ekki verið í samræmi við þessa stefnu nema að litlu leyti; enn skortir á að hið opinbera nýti sér með markvissum hætti alla þá kosti sem í boði eru. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa hvatt hið opinbera að nýta sér kosti útvistunar verkefna á þeim sviðum þar sem bæði þekking og reynsla fyrirtækja er til staðar enda getur ríkisrekstur ekki verið markmið í sjálfu sér og verkefni hins opinbera á að fela þeim sem leysa þau með sem bestum og ódýrustum hætti. Reynslan hefur sýnt okkur að einkaaðilar eru hæfir til að annast slíka þjónustu og má þar nefna sem dæmi bifreiðaskoðun, skólastarfsemi og heilbrigðisþjónustu.

Að mati SVÞ getur útvistun verkefna falið í sér hagræðingu og aukna skilvirkni í ríkisrekstri þar sem þjónusta er veitt á markaðslegum forsendum og hið opinbera fær greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu sem eftir atvikum er ekki til staðar hjá ríkinu. Síðast en ekki síst dregur útvistun verkefna úr ýmsum kostnaði hjá ríkinu, s.s. launa- og rekstrarkostnaði. Þá hafa úttektir og skýrslur Ríkisendurskoðunar bent á að einstaka verkefni sem nú er sinnt af ríkinu séu illsamræmanleg hlutverki og starfsemi hins opinbera og hefur því mælt með að einkaaðilum sé falin framkvæmd þeirra.

Ein þeirra stofnana sem Ríkisendurskoðun hefur fjallað um er Vinnueftirlitið en í stjórnsýsluúttekt frá árinu 2007 kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að óheppilegt sé að stjórnvald veiti fyrirtækjum sérhæfða þjónustu og beina ráðgjöf. Bent er á að einkaaðilar á markaði séu í langflestum tilfellum færir um að annast þau verkefni. Þá segir í skýrslunni: „Við eðlilegar aðstæður, þ.e. þegar framboð og samkeppni á markaði eru nægjanleg, mælir hins vegar flest gegn því að stjórnsýslustofnunin sinni slíkri þjónustu enda hlýtur hún þá að lenda í samkeppni við einkaaðila. Slík starfsemi þarf þá að minnsta kosti að vera rekin sem sérstök eining með sjálfstæðu bókhaldi svo að tryggt sé að opinberu fé sé ekki varið til að niðurgreiða samkeppnisrekstur.“ Er þar m.a. lagt til að kannað verði með formlegum hætti hvort ekki megi ná samlegð og hagræðingu með því að flytja hluta eftirlitsverkefna til faggiltra skoðunarstofa. Þá er einnig samanburður við skipulag vinnueftirlits og vinnuverndar í nágrannalöndunum og er bent á að vinnueftirlitsstofnanir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð annast allar fyrirtækjaeftirlit samkvæmt aðferðafræðinni um aðlagað eftirlit og einnig markaðseftirlit með tilteknum vöruflokkum. Faggiltar skoðunarstofur sinna hins vegar vinnuvélaeftirliti, viðurkenndir þjónustuaðilar sjá um námskeið og kennslu og rannsóknir fara fram á sérstökum rannsóknarstofnunum.

Af úttekt Ríkisendurskoðunar má því draga þá ályktun að starfsemi og hlutverk Vinnueftirlitsins sé á margan hátt frábrugðin því sem viðgengst á Norðurlöndum og orki verulega tvímælis er kemur að hlutverki þess sem leiðbeinandi stjórnvalds annars vegar og þjónustuveitanda hins vegar. Þrátt fyrir áfellisdóma í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa stjórnvöld ekki nýtt sér þær lagaheimildir sem til staðar eru að fela faggiltum aðilum umsjón verkefna Vinnueftirlitsins. Þess ber að geta að faggilt fyrirtæki starfa samkvæmt samevrópskum stöðlum og hafa eftirlit með samevrópskum kröfum sem ríkið hefur leitt í lög hérlendis. Hér er því um að ræða aðila sem eru fyllilega til þess bærir að annast þau verkefni.

Tæki og tól til að útvista verkefnum Vinnueftirlitsins og hæfir aðilar til að annast þau verkefni eru því sannarlega til staðar. Það sem enn skortir hins vegar er að yfirstjórn eftirlitsins, þ.m.t. ráðherrar, taki þá staðföstu ákvörðun að nýta sér þau úrræði til hagsbóta fyrir ríki, atvinnulíf og almenning.

Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, hdl., lögmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Greinin til útprentunar.