Forsætisráðuneytið óskaði nýverið eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki að sér að greina áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag. Skýrsla Hagfræðistofunar liggur nú fyrir. Afnám tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Ísland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Hagfræðistofnun mat álagningu kaupmanna á átta tegundum innfluttra matvara, fatnaðar og heimilistækja á árunum 2014-2017. Verð eru borin saman fyrir og eftir kerfisbreytingu. Álagning kaupmanna er reiknuð út sem afgangsstærð þegar tillit hefur verið tekið til annarra verðþátta, aðflutningsgjalda og virðisaukaskattshlutfalls. Þróun álagningar í krónum er síðan notuð sem mælikvarði á kjarabætur neytenda. Stofnunin telur rétt að miða við álagningu í krónum fremur en hlutfallslega álagningu því stærstur hluti af rekstrarkostnaði verslana er óháður innkaupsverði á þeim vörum sem verslað er með.
Niðurstaðan er sú að lækkun gjalda hafi skilað sér í vasa  neytenda. Smásöluverð allra varanna lækkaði. Álagning kaupmanna, mæld í krónum, lækkaði eða breyttist lítið á sjö vörum af átta. Þannig lækkaði álagning á 1 kg. af strásykri úr 65 kr. árið 2014 í 41 kr. árið 2017, álagning á gallabuxum úr 8.462 kr. í 7.961 kr. og álagning á ísskápum úr 26.962 kr. í 20.515 kr. Álagning á skyrtum hækkaði hins vegar úr 5.729 kr. í 6.092 á sama tímabili.