SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ítreka að í maí nk. munu koma til framkvæmda umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á evrópskri persónuverndarlöggjöf í rúm 20 ár og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum – og auknum – kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga.

Fátt hefur verið meira til umfjöllunar á opinberum vettvangi undanfarin ár en boðaðar breytingar á persónuverndarlöggjöfinni. Er um að ræða breytingar sem tilkomnar eru vegna reglugerðar Evrópusambandsins sem brátt mun verða hluti af regluverki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst er að þessar breytingar hafa nú þegar kallað á ríka endurskoðun fyrirtækja á núverandi framkvæmd og fyrirkomulagi þeirra er viðkemur söfnun, vinnslu og miðlun á persónuupplýsingum.

SVÞ hafa þegar haldið tvo félagsfundi um boðaðar breytingar. Annars vegar í desember 2016 þar sem forstjóri og fulltrúar Persónuverndar fóru yfir helstu breytingar og áhrif þeirra hér á landi, og hins vegar í desember á síðasta ári þar sem enn og aftur var farið yfir þessi álitamál. Meðfylgjandi eru til upplýsingar glærur af fundinum í desember sl. ásamt upptöku af þeim fundi.

Hörður Helgi Helgason – Hverju breyta nýjar persónuverndarreglur í raun?
Lárus M.K. Ólafsson – Breytingar á persónuverndarlöggjöf – Hverju ber að huga að

 

Eins og áður segir munu boðaðar breytingar taka gildi í maí nk. og verða brátt kynnt til umsagnar á vettvangi stjórnvalda drög að frumvarpi til innleiðingar á regluverkinu. Því er mikilvægt að fyrirtæki séu vel undir það búin að aðlaga starfsemi sína að breyttum reglum. Á margan hátt mun hið nýja regluverk fela í sér áréttingu á núgildandi kröfum en þó er þar að finna nýjar og ítarlegar kröfur til verndar réttindum einstaklinga.

SVÞ telja því verulega mikilvægt að fyrirtæki hugi vel að þeim breytingum og hvernig þær kunna að hafa áhrif á starfsemi þeirra. SVÞ hafa útbúið gátlista fyrir fyrirtæki um þau atriði sem vert er að taka til skoðunar vegna boðaðra breytinga sem taka mun gildi með nýjum persónuverndarreglum. Þá munu Samtök atvinnulífsins birta um miðjan febrúar ítarlegar upplýsingar og ýmsan fróðleik um þessar breytingar inni á vinnumarkaðsvef á heimasíðu samtakanna.

Hér nálgast gátlista.