Fréttatilkynning send til fjölmiðla 12.9.2017
Eins og kunnugt er voru í september 2015 undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur.

Þess hefur hins vegar verið beðið lengi að Evrópuþingið staðfesti samninginn fyrir sitt leyti. Í dag var samningurinn loksins á dagskrá þingsins. Eins og við mátti búast rann samningurinn átakalítið í gegn og var samþykktur með 665 atkvæðum gegn 7, en 18 þingmenn sátu hjá. Þar með er síðustu hindruninni rutt úr vegi fyrir gildistöku þessa mikilvæga samnings og eftir síðustu fréttum að dæma ætti gildistaka að geta orðið ekki seinna en 1. apríl 2018.

Hér má nálgast frétt Evrópuþingsins.

Fréttatilkynning til útprentunar