SVÞ aðstoðar í málum fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa

Á haustmánuðum veitti skrifstofa SVÞ aðildarfyrirtæki samtakanna aðstoð í málum fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Vara hafði verið boðin til sölu á tilboðsverði, bæði í netverslun og hefðbundinni smásöluverslun, en þau mistök gerð að rangt söluverð var tilgreint. Nam hið rangt tilgreinda tilboðsverð aðeins 10% af því verði sem til stóð að bjóða enda vantaði einn tölustaf í verðmerkinguna.

Nokkrir neytendur höfðu pantað vöruna í netverslun og greitt fyrir. Þegar verslunin varð mistakanna var, áður en til afhendingar kom, hafði hún samband við kaupendur, upplýsti um mistökin, endurgreiddi kaupverðið og tilkynnti að hún teldi sér ekki skylt að standa við söluna í ljósi aðstæðna.

Tveir kaupenda óskuðu úrskurða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa og kröfðust þess fyrir nefndinni að versluninni yrð gert að afhenda söluvörurnar gegn greiðslu hins rangt tilgreinda tilboðsverðs. Kærunefndin hafnaði kröfum þeirra beggja.

Í málunum reyndi á ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, sem er efnislega á þá leið að fyrirtækjum sé skylt að selja vöru á því verði sem verðmerkt er, einnig þótt um mistök sé að ræða, nema kaupanda megi vera mistökin ljós.  Fá dæmi eru um að reynt hafi á ákvæðið og því veitir rökstuðningur kærunefndarinnar fágæta leiðbeiningu um mat á slíkum kringumstæðum. Ber a.m.k. annar úrskurðanna það með sér að sjálf mistökin þurfi ekki í öllum tilvikum að vera neytanda ljós þegar hann tekur ákvörðun um kaup, leggur inn pöntun og greiðir kaupverð heldur geta viðbrögð verslunarinnar þegar hún áttar sig á að mistök hafi orðið haft mikið að segja. Þann lærdóm má einnig draga af úrskurðunum að verslanir verði að gæta þess sérstaklega að söluverð sé ávallt rétt merkt.

Réttur neytenda til að fá vöru afhenta gegn greiðslu merkts söluverðs er verulega ríkur og þarf mikið til að koma svo verslanir geti komist undan slíkri afhendingu. Úrskurðirnir hafa ekki verið birtir á vefsíðu kærunefndarinnar en von er á að svo verði innan tíðar.