Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí sl.:
Tekjur sveitarfélagana af fasteignaskatti hafa aukist gífurlega á undanförnum árum, langt umfram almenna verðlagsþróun og hafa sveitarfélögin aldrei haft jafn miklar tekjur af þessum skatti og nú. Á meðan árleg hækkun almenns verðlags undanfarin ár hefur verið á bilinu 2-3 % hefur skattheimta í formi fasteignaskatts á sama tíma aukist um 14-18% á ári. Ástæðan er einfaldlega breytt aðferð við útreikning skattsins sem Þjóðskrá tók upp árið 2015.
Erlendur samanburður
Það er ekki aðeins að fasteignaskattur sé hár í sögulegu samhengi heldur einnig í alþjóðlegum samanburði. Samanburður við hin ríki Norðurlandanna sýnir að fasteignaeigendur hér á landi greiddu 1,5% af vergri landsframleiðslu í fasteignaskatt 2016, sem er nær tvöfalt hærra hlutfall en í hinum Norðurlandaríkjunum. Þó að markaðsverðmæti húsnæðis sé stofn til útreiknings fasteignaskatts þar eins og hér, er ástæða fyrir minni skattheimtu í þessu formi þar sú, að bæði er skattprósentan mun lægri í öllum hinum Norðurlandaríkjunum og síðan ræður markaðsverðið ekki eingöngu stofni skattsins eins og hér á landi. Sérstök varúðarregla, sem notuð er í öllum hinum ríkjum Norðurlandanna, kemur í veg fyrir að markaðsverðmæti húsnæðis sé alfarið notað sem skattstofn. Hámarksálagning fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði er 1,65% hér á landi. Í hinum Norðurlandaríkjunum er þetta hlutfall á bilinu 0,5-1,0% og getur aldrei orðið hærra en 80% af markaðsvirði viðkomandi eignar.
Leggst þyngst á atvinnuhúsnæði
Þrátt fyrir að verðmæti atvinnuhúsnæðis sé einungis um 20% af heildarverðmæti alls húsnæðis í landinu, skilar fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði sveitarfélögunum 55% þeirra tekna sem innheimtar eru í formi fasteignaskatts. Reikna má með að tekjur sveitarfélagana í landinu af fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði hafi numið um 23 milljörðum króna árið 2018 og hafi hækkað um 2,3 milljarða króna á milli ára, hjá stærstu sveitarfélögunum.
Reykjavíkurborg er sér á báti
Stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, er sér á báti í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Þar sem meirihluti alls atvinnuhúsnæðis á landinu er staðsettur í höfuðborginni, rennur meirihluti alls fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði til borgarsjóðs Reykjavíkur. Tekjur borgarinnar af skattinum jukust um 1,5 milljarða frá 2018 til 2019. Borgin heldur áfram hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts fyrir árið 2019, öfugt við ýmis nágrannasveitarfélög. Eins og ljóst má vera hefur hin mikla hækkun leitt til þess að skatturinn vegur sífellt þyngra í rekstri heimila og fyrirtækja. Óhjákvæmilega hefur þessi þróun leitt til hærra leiguverðs atvinnuhúsnæðis og þar með til víxlverkunar hækkandi fasteignamats og leiguverðs. Með þessu áframhaldi mun aðdráttarafl höfuðborgarinnar sem atvinnusvæðis minnka og þau fyrirtæki sem þess eiga kost munu leita annað með atvinnurekstur sinn.
Stjórnvöld grípi inn í
Stjórnvöld verða að grípa hér inn í. Það er ekki með nokkru móti hægt að una við að breytt aðferð Þjóðskrár við útreikning fasteignaskatts hafi leitt af sér þá gífurlegu skattahækkun sem hér er lýst. Fasteignaeigendur, bæði að íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, hljóta að gera þessa kröfu og stjórnvöld hafa í hendi sér aðferðina við að tryggja að skipan þessara mála komist í ásættanlegt horf.