Næstkomandi haust hefst í Verzlunarskóla Íslands ný stafræn viðskiptalína á framhaldsskólastigi. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaðinum og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og gefur þeim innsýn í þau störf og þá hröðu þróun sem á sér stað innan verslunar og þjónustu.

Miklar framfarir og vöxtur stafrænnar tækni kallar á auknar kröfur um menntun á því sviði. Um leið verður slík menntun nauðsynleg fyrir atvinnugreinar sem vaxa ógnarhratt hvort heldur sem er í formi vefverslana eða annarra stafrænna þjónustulausna. Séreinkenni námslínunnar er annars vegar falin í nýjum áföngum er tengjast stafrænum lausnum, greiningu á gögnum og notagildi samfélagsmiðla í markaðssetningu og hins vegar vinnustaðanámi. Með vinnustaðarnáminu fá nemendur innsýn og þjálfun í þeim nýju störfum sem skapast hafa og munu halda áfram að skapast innan verslunar og þjónustu í kjölfar þeirrar hröðu starfrænu þróunar sem á sér stað.

Einungis 25 nemendur verða teknir inn í námið í haust en um 40 verðandi nemendur við Verzlunarskólann sóttu um. Námslínan er samvinnuverkefni Samtaka verslunar og þjónustu, Verzlunarskóla Íslands, VR og Starfsmenntasjóðs verslunar og skrifstofufólks. Unnið hefur verið að undirbúningi námsins sl. tvö ár að frumkvæði Samtaka verslunar og þjónustu.