Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ skrifar:

Alþingi hefur samþykkt samhljóða sem lög frumvarp til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur. Er hér um að ræða innleiðingu á Evrópulöggjöf um þetta efni sem er búin að vera í undirbúningi mjög lengi. Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum frá SVÞ um þetta mál, þá hefur baráttan fyrir lækkun milligjalda í kortaviðskiptum verið eitt helsta hagsmunamál hagsmunasamtaka verslunarinnar í Evrópu um langt árabil. Lögin taka gildi 1. september n.k.

Meginefni laganna er að sett eru hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Milligjöldin er sú þóknun sem útgefendur greiðslukorta, oftast bankar eða sparisjóðir, fá greitt frá færsluhirði (á Íslandi einkum Borgun, Valitor og Kortaþjónustan). Sérstakt þjónustugjald kemur síðan til viðbótar í öllum kortaviðskiptum, en það er gjaldið sem færsluhirðir fær greitt frá söluaðila fyrir þjónustu sína.

Söluaðilar eru að jafnaði ekki í góðri stöðu til að hafna algengum greiðslukortum, þrátt fyrir mikinn kostnað af notkun þeirra, enda eru greiðslukort orðin langalgengasti greiðslumátinn. Korthafar hafa að sama skapi yfirleitt lítinn eða engan hvata til að velja ódýrari greiðslumáta enda er kostnaðinum venjulega jafnað niður á neytendur. Hérlendis birtist það m.a. í mikilli notkun kreditkorta þótt kostnaður vegna notkunar þeirra sé meiri en vegna debetkorta.

Sú þóknun sem verslunin og aðrir söluaðilar hafa þurft að greiða í milligjöld og þjónustugjöld fyrir notkun greiðslukorta í viðskiptum, hefur lengi verið mikill þyrnir í þeirra augum. Samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa brugðist við þessum aðstæðum. Þann 18. desember 2014 tilkynnti Samkeppniseftirlitið um að Arion banki hf., Íslandsbanki hf., Landsbankinn hf., Borgun hf. og Valitor hf. hefðu hvert fyrir sig gert sátt við eftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Sú sátt birtist í  ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015 þar sem fyrirtækin féllust  m.a. á hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% fyrir debetkort og 0,6% fyrir kreditkort. Hámörkin voru að hluta til hugsuð sem aðlögun að ákvæðum í fyrirhugaðri reglugerð Evrópusambandsins um milligjöld, þeirri sem nú hefur verið lögfest hér á landi.

Samtök verslunar og þjónustu brýna fyrir aðildarfyrirtækjum sínum að fylgjast náið með því að tilskyldar breytingar verði á milligjöldum í kortaviðskiptum þegar lögin taka gildi þann 1. september n.k.