Rannsóknarsetur verslunarinnar birti 17. desember nýjar tölur úr íslenskri netverslun:

Í nóvembermánuði síðastliðnum, jókst innlend kortavelta Íslendinga í netverslun um 15% frá sama mánuði í fyrra en velta innlendra greiðslukorta Íslendinga í verslun jókst um 5% á sama tímabili.

Jólaverslun fer að töluverðum hluta fram í nóvember en með stórum verslunardögum að erlendri fyrirmynd færist jólaverslunin sífellt meira fram í þann mánuð. Hér er átt við hinn Bandarískættaða
Svarta föstudag, kínverska dag einhleypra og netmánudaginn, en allir falla þessir dagar í nóvember.

Verðbólga á tímabilinu, samkvæmt Hagstofu Íslands, mældist 3,3% sem að einhverju leyti útskýrir hærri kortaveltu í verslun en raunaukningin er samkvæmt því um 1,6%. Nokkuð dró úr kortaveltu Íslendinga í verslun á haustmánuðum og var samdráttur í októbermánuði til að mynda 4%, samanborið við október 2017 en líkt og áður sagði var aukning í nóvember. Þetta kann að benda til þess að neytendur haldi í auknu mæli í sér með jólainnkaupin fram að þessum stóru afsláttardögum.

Nóvember er mikill netverslunarmánuður en kortavelta í innlendri netverslun Íslendinga var rúmlega 81% meiri í nóvember síðastliðnum samanborið við október á undan. Þessa árstíðarsveiflu má sjá á myndritinu hér að ofan.

Kortavelta Íslendinga hjá innlendum raftækjaverslunum var 2,9% hærri í nóvembermánuði nú, samanborið við fyrra ár. Þá var netverslun í flokknum 21,4% hærri en í nóvember í fyrra. Á milli mánaða nam aukningin í flokknum 153,3% í netverslun, en sú tala varpar ljósi á mikilvægi netverslunar í nóvember hjá raftækjasölum. Heildarvelta í flokknum nam tæpum 2,6 milljörðum kr., þar af nam netverslun 331 milljónum. Hlutfall netsölu flokksins er því 13%.

Innlend fataverslun hefur verið í vexti undanfarna mánuði, hvort sem er í búðum eða á netinu. Í nóvember var þó lítilsháttar lækkun í flokknum eða um 0,6% frá fyrra ári. Líkt og í öðrum flokkum jókst þó netverslun með föt í nóvember eða um 20% frá sama mánuði í fyrra.

Kortavelta Íslendinga í verslunum sem selja heimilisbúnað var 15% hærri í nóvember í ár samanborið við fyrra ár. Netverslun með heimilisbúnað tók þá kipp og var 28% hærri á ár en í fyrra. Svipaða sögu er að segja af byggingavöruverslunum, þar sem að netverslun jókst um rúm 27% í nóvember í ár, samanborið við fyrra ár.

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

Gögn um kortaveltu Íslendinga hérlendis koma frá innlendum færsluhirðingaraðilum korta og öðrum greiðslumiðlurum. Gögnin byggja á sama grunni og kortavelta erlendra ferðamanna sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur reiknað og birt undanfarin ár. Nánari upplýsingar veita Aron Valgeir Gunnlaugsson og Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður RSV, S. 868 4341.