Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Morgunblaðið 4. maí sl.
Það er skortur á lambakjöti á Íslandi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Engu að síður er þetta staðreynd. Ekki svo að skilja að ástæðan fyrir þessum „vanda“ sé sú að ekki séu nægar birgðir lambakjöts í landinu. Vandinn er nefnilega af annarri tegund, en samt heimatilbúinn.
Lambakjöt er nokkuð eftirsótt vara, ekki síst lambahryggurinn, en það er sú afurð lambsins sem lang mest spurn er eftir meðal neytenda. Hingað til hefur innanlandsframleiðslan dugað vel til að sinna innlendri eftirspurn árið um kring. Nokkrar afurðastöðvar fluttu hins vegar umtalsverðan hluta af lambahryggjum sem féll til við sláturtíð 2018 úr landi, bæði ferska og frosna, á verði sem er langt undir því verði sem innlendri verslun stendur til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var meðal skilaverð á frosnu hryggjunum 879 kr/kg, en örlítið hærra á þeim fersku. Það verð sem versluninni hefur staðið til boða var þá, a.m.k. tvöfallt þetta verð. Nú er svo komið að skortur er á innlendum lambahryggjum, þegar fjórir mánuðir eru þar til sláturtíð hefst á ný. Á sama tíma hafa afurðastöðvar ýmist boðað verulega verðhækkun á þeim hryggjum sem á annað borð eru til, skömmtun, að viðskiptin verði skilyrt eða einfaldlega að pöntunum sé hafnað. Það skal tekið fram að flestar afurðarstöðvar hér á landi eru í eigu bænda, ekki síst sauðfjárbænda.
Einstök aðildarfyrirtæki SVÞ hafa þegar sent beiðni til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins, þar sem óskað er eftir því að tollfrjáls innflutningur á lambahryggjum verði heimilaður, til þess að unnt verði að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni og koma í veg fyrir umtalsverða verðhækkun á lambakótilettum í sumar. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð ráðuneytisins við þessari sjálfsögðu ósk. Í því svari munu birtast viðhorf stjórnvalda í kjölfar nýgerðra kjarasamninga, til þess hvort vegi þyngra heildarhagsmunir íslenskra neytenda eða sérhagsmunir afurðarstöðva, sem notað hafa skattfé til þess að niðurgreiða lambakjöt til erlendra neytenda og ætla síðan að hækka verð á íslenska neytendur vegna heimatilbúins skorts.