Þann 1. júní s.l. opnaði ný heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, að Bíldshöfða 9, í gamla Hampiðjuhúsinu. Þetta er fyrsta heilsugæslustöðin til að opna á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár og er stofnsett á grundvelli útboðs sem fram fór á s.l. ári þar sem boðinn var út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi heilsugæslustöðvarinnar fer mjög vel af stað en þegar hafa um 4500 manns skráð sig en ætlunin er að sinna a.m.k. þrefalt þeim fjölda.

Um áramótin voru innleiddar breytingar hjá Sjúkratryggingum Íslands þannig að fólk getur valið sér heimilislækni og heilsugæslustöð óháð því hvar þeir búa. Mikilvægt er að kynna þessa breytingu betur, en nokkuð hefur vantað á að fólk geri sér grein fyrir þessum breytingum á réttindum sínum til að sækja heilsugæsluþjónustu þar sem það óskar. Allir skjólstæðingar Heilsugæslunnar Höfða, sem þess óska, munu fá sinn eigin heimilislækni og geta þá einnig skráð fjölskylduna alla hjá sama lækni.  Gjaldtaka er eins og á öllum öðrum heilsugæslustöðvum og ákvörðuð af Sjúkratryggingum Íslands.

Lögð verður áhersla á gott aðgengi og stuttan biðtíma.  Þess vegna hefur sú nýjung verið innleidd að auk hefðbundinna tímabókana og síðdegisvakta frá kl. 16 -18 verði opin móttaka milli kl 8 og 10 á morgnana þar sem óþarft er að bóka tíma fyrirfram, ætlað fyrir stutt eða bráð erindi. Þannig verður stuðlað að því að engum sé vísað frá og skjólstæðingar þurfi ekki að leita annað nema í algerri neyð utan dagvinnu. Heilsugæslan Höfða mun þannig leitast við að gera heilsugæsluna að raunverulegum fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.
Heilsugæslan Höfða mun jafnframt bjóða upp á alla grunnþjónustu eins og mæðravernd, ungbarnavernd, hjúkrunarmóttöku og einnig verður ákveðin áhersla á lífstílssjúkdóma og vinnu í teymum fyrir skjólstæðinga með langvinna sjúkdóma.

Að heilsugæslunni standa 10 heimilislæknar og á henni starfa 6 hjúkrunarfræðingar þar af 2 ljósmæður, 5 ritarar og framkvæmdastjóri. Allt er þetta starfsfólk með mikla reynslu og mikinn áhuga á að bæta og styrkja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Vonandi er opnun þessarar einkareknu heilsugæslustöðvar fyrsta skrefið í áframhaldandi þróun á því sviði og við megum sjá fleiri slíkar stöðvar opna á næstunni. Slíkt væri í fullu samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar að undanförnu, en bæði í Noregi og Svíþjóð hafa verið tekin afgerandi skref í átt til aukins einkareksturs í heilsugæslunni á undanförnum einum og hálfum áratug. Í Danmörku hefur heilsugælsan verið einkarekin áratugum saman.