Samantekt frá SVÞ um vísitölu neysluverðs
Verð á öllum helstu neysluvörum hefur lækkað síðustu 12 mánuði. Þegar rýnt er í verðþróun á húsgögnum og heimilistækjum síðustu 12 mánuði kemur í ljós að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 12,5%, lítil heimilistæki um 8,4%, stór heimilistæki um 7,5%, raftæki um 7,1% og sjónvörp, myndbönd, tölvur o.fl. um 8,2%. Þá hefur verð á matvöru lækkað um 1,1% og verð á drykkjavörum hefur lækkað um 4,1% á sama tímabili. Þegar nánar er skoðað hvað það er sem valdið hefur verðbólgunni að undanförnu þá má ljóst vera að þar munar um þætti eins og húsnæði og opinbera þjónustu. Ríkið og sveitarfélögin hafa aukið álögur á heimilin, t.a.m. hefur sorphreinsun hækkað um 15,9%, holræsisgjöld um 1,9% og rafmagn og hiti um 1,5% síðustu 12 mánuði. Erfitt er að festa hendi á nákvæmlega hvað veldur slíkum hækkunum en það mætti m.a. nefna að hagsmunir ríkisfyrirtækja eru dreifðir þ.a. hver og einn eigandi hefur mjög takmarkaðan hag af því að veita fyrirtækinu aðhald. Þá hafa laun hjá opinberum starfsmönnun hækkað meira en á almenna vinnumarkaðnum.