SAMTÖK SJÁLFSTÆÐRA SKÓLA

Samþykktir fyrir Samtök sjálfstæðra skóla

 

1. gr. Heiti
Almennt heiti samtakanna er Sjálfstæðir skólar og undirheiti Fjölbreytt samfélag skóla
Enskt aukaheiti samtakanna: Association of Icelandic Independent Schools

2. gr. Heimilisfang
Heimili samtakanna og varnarþing er hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.

3. gr. Tilgangur
Samtökin eru vettvangur skóla sem eru leiðandi í faglegu starfi og rekstri skóla á Íslandi.

Sjálfstæði aðildarfélaga endurspeglar sjálfsákvörðunarrétt rekstraraðila og stjórnenda skóla um stefnu, rekstur og skólastarf. Þær ákvarðanir eru ávallt teknar í samræmi við lagaramma og stjórnvaldsfyrirmæli.

Sjálfstæðið endurspeglar vilja til að tryggja svigrúm til athafna og uppbyggingar svo unnt sé að koma sem best til móts við nemendur, foreldra og starfsfólk.

Tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna sjálfstæðra skóla, efla samheldni þeirra, skapa vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari fyrir sjálfstæða leik-, grunn- og framhaldsskóla gagnvart opinberum aðilum

Hlutverk Sjálfstæðra skóla er að nýta samstöðu, samvinnu og samtakamátt skólanna til að auka gæði faglegs skólastarfs og efla rekstrarforsendur sem birtist í ávinningi fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að starfa að þeim málefnum og markmiðum sem félagar ákvarða á aðal- og félagsfundum og með þeim aðferðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni. Þannig munu samtökin m.a. halda reglubundna félagsfundi auk þess að halda opna fundi.

Samtökin eru ekki rekin í fjárhaglegum tilgangi!

4. gr. Aðild
Félagar í samtökunum geta verið þeir skólar sem reknir eru af einstaklingum, foreldrum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða stofnunum. Umsóknir um aðild skulu afgreiddar á stjórnarfundi.

Greiðsla félagsgjalda skal fara fram fyrir 1. október ár hvert og skal fjárhæð þeirra ákveðin á aðalfundi.

5. gr. Ársreikningar
Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Reikninga skal leggja fram á aðalfundi, áritaða af skoðunarmönnum samtakanna.

6. gr. Félagsfundir og almennir fundir
Félagsfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á félagsfundi, nema annað sé sérstaklega tekið fram í samþykktum. Stjórn boðar til félagsfundar með tryggum hætti, s.s. með útsendingu rafræns fundarboðs.

Rétt til setu á félagsfundum samtakanna hafa fulltrúar allra skóla sem hafa greitt félagsgjöld. Hver skóli skal tilnefna einn fulltrúa og einn til vara.

Stjórn samtakanna er skylt að efna til almenns félagsfundar ef minnst 1/3 félagsmanna óska þess.

Almennir fundir skulu auglýstir á tryggilegan máta.

7. gr. Aðalfundur
Aðalfundur samtakanna skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Skýrsla stjórnar

2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna

3. Umræður um skýrslu og reikninga

4. Félagsgjöld ársins

5. Lagabreytingar

6. Kosning formanns og varaformanns

7. Kosning meðstjórnenda og varamanna

8. Kosning tveggja skoðunarmanna

9. Önnur mál

Framboð til stjórnar skal berast formanni stjórnar samtakanna í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar.

8. gr. Stjórn
Stjórn samtakanna skal kjósa á aðalfundi og skipa fimm menn, þ.e. formaður, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Þrír menn skulu kjörnir til vara. Formaður og varaformaður skulu kjörnir sérstaklega á hverjum aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórn sjálf með sér verkum.

Stjórn samtakanna er í forsvari fyrir samtökin og ræður málefnum samtakanna með þeim takmörkunum sem samþykktir þessar setja. Stjórnin er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum samtakanna.

Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti. Formaður (varaformaður) boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir og kveður varamenn til stjórnarfunda eftir aðstæðum.

Heimilt er að gefa varamönnum kost á að sitja stjórnarfundi, ásamt aðalmönnum, án atkvæðaréttar

Skylt er að halda stjórnarfund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst þrír stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

9. gr. Breytingar á samþykktum
Samþykktum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundum. Tillögum til lagabreytinga skal skila 7 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn í fundarboði geta þess ef breytingatillaga hefur komið fram.

Nái breytingatillaga samþykki 2/3 hluta fundarmanna telst hún samþykkt.

10. gr. Slit á samtökunum
Afgreiða skal tillögu um að slíta samtökunum eins og tillögu um breytingu á samþykktum, sbr. 9. gr. Við slit á samtökunum skal aðalfundur jafnframt ákvarða um ráðstöfun eigna, greiðslu skulda og skuldbindinga samtakanna eyða út. (má sleppa að fjalla um skuldir og skuldbindingar). Við slit á samtökunum skulu eignir félagsins ef einhverjar eru renna til þeirra leik- og grunnskóla sem aðild eiga að félögunum.

11. gr. Brottrekstur
Stjórn er heimilt að víkja félögum úr samtökunum vegna:

1. Vanskila við samtökin.

2. Alvarlegs brots gegn samþykktum samtakanna, landslögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða háttsemi sem er til þess fallin að valda samtökunum hnekki.

3. Ef félagi uppfyllir ekki lengur skilyrði aðildar. Heimilt er að bera ákvörðun um brottrekstur undir félagsfund, sem skal þá efna til fundar eins fljótt og unnt er.

Þannig samþykkt á stofnfundi samtakanna 10. mars 2005

Þannig breytt á aðalfundi samtakanna 8. mars 2007

Þannig breytt á aðalfundi samtakanna 27. febrúar 2008

Þannig breytt á aðalfundi samtakanna 28. apríl 2015

Þannig breytt á aðalfundi samtakanna 23. apríl 2024