Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu 28. júní sl.

Enn á ný hafa hugmyndir um upptöku sykurskatts skotið upp kollinum. Þar með gengur aftur gamall draugur sem flestir töldu að hefði verið kveðinn niður fyrir fullt og allt. En lengi er von á einum enda er hið pólitíska umhverfi frjór jarðvegur fyrir allar hugmyndir um öflun meiri ríkistekna í formi skattheimtu.

Og sagan endurtekur sig eins og sagt er því þetta form skattheimtu er ekki nýtt af nálinni. Í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009–2013, var skattur í formi vörugjalds lagður á sykur og sykraðar vörur. Árangur þeirrar skattheimtu reyndist hins vegar dapur. Skattheimtan var afar flókin í framkvæmd, hún var dýr fyrir fyrirtæki og hið opinbera og skilaði hlutfallslega litlum tekjum í ríkissjóð. Samkvæmt könnun Rannsóknarseturs verslunarinnar hafði skatturinn lítil sem engin áhrif á neysluhegðun fólks. Niðurstaðan var sú að næsta ríkisstjórn sem við tók beitti sér fyrir afnámi sykurskattsins, m.a. á grundvelli tillagna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og á það féllst Alþingi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árum sykurskattsins. Til þess ber að líta að neysluhegðun fólks hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum. Miðlægar upplýsingar um neyslu og innihaldsefni matvæla eru orðnar gamlar og gefa alls ekki rétta mynd neyslumynstri dagsins í dag. Ef litið er til nágrannaríkja okkar gefur t.d. nýleg könnun sem gerð var á neysluhegðun Svía þá mynd að ótrúlegar breytingar hafi orðið á hegðuninni sl. áratug.

Vöruframboð innlendrar verslunar ræðst óhjákvæmilega af eftirspurn. Hver hillumetri er verslunum afar verðmætur og staðsetning vöru skiptir máli. Í því ljósi er matvöruverslunin stöðugt vakandi fyrir nýbreytni og breytingum á áherslum neytenda. Síðustu ár hefur þróun í matvöruverslun tekið æ ríkara mið af breyttum áherslum og hegðun neytenda. Ört stækkandi hluti neytenda leggur áherslu á að neyta hollrar fæðu og sá hópur sneiðir kerfisbundið hjá sykruðum og fituríkum matvælum. Viðbrögð verslunarinnar endurspeglast í þeim stórkostlegu breytingum sem hafa orðið í vöruframsetningu þar sem nú er lögð mikil áhersla á að hafa hollustuvörur eins og ávexti, grænmeti o.fl. sem mest áberandi. Að sama skapi hefur framsetning sælgætis og sykraðra drykkja færst á síður áberandi staði. Ástæðan er í meginatriðum sú að neytendur vita hvað þeir vilja, hafa skýra hugmynd um afleiðingar neyslu matvæla og velja því hollustu.

Stjórnmálamenn hafa lengi haft ríka tilhneigingu til að hafa vit fyrir fólki. Öflun ríkistekna með aðferðum sem hafa jákvæðan blæ er vinsæl um þessar mundir. Í þetta skiptið á skatturinn að bæta hressa og kæta og að jafnvel gefa hraustlegt og gott útlit. En ríkiskassinn má hins vegar fitna á kostnað neytenda!