Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var, fimmtudaginn 17. mars, var kosið um þrjú sæti í stjórn samtakanna. Kosningu hlutu Jón Björnsson, Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, frá verslunin Kvosin ehf.
Aðrir í stjórn samtakanna eru Margrét Sanders, Deloitte ehf., sem var endurkjörin formaður samtakanna til tveggja á síðasta aðalfundi, Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Margrét G. Flóvenz frá KPMG og Ari Edwald frá MS. Úr stjórn SVÞ gengu Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka Sjálfstæðra skóla, Gestur Hjaltason frá ELKO og Sigríður Margrét Oddsdóttir frá Já.
Eitt af helstu baráttumálum SVÞ er að ríki og sveitarfélög úthýsi mun fleiri verkefnum til einkafyrirtækja. Það eykur skilvirkni, bætir þjónustu og sparar umtalsvert fjármagn.
Breytingar á tollakerfinu eru annað af helstu baráttumálum SVÞ og í þeim málaflokki voru stigin mikilvæg skref á starfsárinu, þegar Alþingi samþykkti breytingar á tollalögum sem tóku gildi um síðustu áramót og fela í sér afnám tolla af fötum og skó. Einnig má nefna fyrirhugaða niðurfellingu á tollum af öllum öðrum vörum en matvöru og sem taka mun gildi um áramótin 2016-2017. Um er að ræða sigur í áralöngu baráttumáli SVÞ og samtökunum þykir ástæða til að þakka stjórnvöldum, og þá sérstaklega fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir að hafa stigið þetta skref. Þessi breyting, auk afnáms almennra vörugjalda um áramótin 2014-2015, eru veigamestu skref sem stjórnvöld hafa tekið um árabil til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.
Mynd: Ný stjórn SVÞ, frá vinstri Jón Björnsson, Kjartan Örn Sigurðsson, Jón Ólafur Halldórsson, Margrét G. Flóvens, Árni Stefánsson, Margrét Sanders, Ari Edwald og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.
Ársskýrslu SVÞ má finna hér.