Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, hafa í samvinnu við Tækniskólann, unnið að undirbúningi stúdentsbrautar við skólann þar sem lögð verður áhersla á stafrænar lausnir og færnisþjálfun. Þessi námsbraut er hugsuð fyrir nemendur sem stefna að störfum innan verslunar- og þjónustugeirans. Þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders formanns SVÞ á ársfundi samtakanna í dag sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica. „SVÞ er búið að leggja áherslu á að auka framboð menntunar til að mæta áskorunum sem fylgja þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í samfélaginu vegna tækniframfara og breyttar neysluhegðunar fólks“ sagði Margrét ennfremur. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Framtíðin er núna!“ og á henni var horft til framtíðar og á þá áhrifavalda sem hafa áhrif á breytingar á straumum og stefnum hvað viðkemur verslun og þjónustu. Ráðherra ferðamála, viðskipta- og iðnaðar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir opnaði dagskrá ráðstefnunnar auk ráðherra og Margrétar Sanders fluttu Magnus Lindkvist sænskur framtíðarfræðingur og Lisa Simpsson sérfræðingur hjá Deloitte erindi. Fundarstjóri var Bergur Ebbi Benediktsson.

Lisa Simpson sagði í erindi sínu að Blockchain væri sú tækni sem mun hafa ein mestu áhrif á og breyta því hvernig viðskiptamódel verða hugsuð og hvernig við höfum samskipti við hvert annað. „Tæknin mun hafa áhrif á atvinnustarfsemi og geira út um allan heima,“ sagði hún ennfremur.

Hér má nálgast fyrirlestur Lisu Simpson

Í erindi sínu sagði Magnus Lindkvist að of margir einstaklingar sjái framtíðina fyrir sér sem eitthvað sem gerist fyrir þá. „Hvort sem það er stáltollur Trumps, tæknibreytingar sem koma frá Silicon Valley eða afleiðingar ofsa veðurfars. Ég trúi því að framtíðin sé ekki staður eða dagsetning, hún er viss virkni. Við þurfum að hætta að vera fórnarlömb og byrja að skipuleggja og stýra eigin örlögum. Við þurfum að kenna öllum, frá börnum til forstjóra, markvisst að gera framtíðina betri,“ sagði Magnus Lindkvist.