Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi á miðnætti og felur í sér eftirtaldar breytingar:
- Almennar fjöldatakmarkanir fari úr 10 í 50 manns.
- Nándarregla fari úr 2 metrum í 1 metra.
- Óbreytt grímuskylda, sem tekur þó almennt mið af nándarreglu.
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði verði heimilt að hafa opið með 75% afköstum.
- Íþróttakeppnir verði áfram heimilar með 50 þátttakendum og áhorfendur séu leyfðir á ný.
- Hámarksfjöldi í verslunum geti mest orðið 500 manns.
- Skemmtistöðum, krám, spilastöðum og spilakössum verði heimilað að opna á ný.
- Veitingastöðum, þ.m.t. krám og skemmtistöðum, verði heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum til kl. 23.00 en gestum verði gert að yfirgefa staðina kl. 00.00.
- Á sitjandi viðburðum verði heimilt að taka á móti allt að 500 gestum í hverju hólfi, viðhalda skuli 1 metra nándarreglu milli óskyldra aðila auk grímuskyldu. Ekki verði þörf á hraðprófum.
- Í skólum verði óbreyttar takmarkanir, þó þannig að þær verði aðlagaðar framangreindum tilslökunum eftir því sem við á.
- Reglugerðin gildi í tæpar fjórar vikur til og með 24. febrúar.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að ráðherra hafi vikið lítillega frá tillögum sóttvarnalæknis, þ.e. með því að láta nýju reglurnar taka gildi fyrr, lengja opnunartíma veitingastaða um tvær klukkustundir í stað einnar og hækka hámarksfjölda í verslunum.