Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Hlekkur á frétt ESA.