Þar sem styttist í að breytingar á persónuverndarlöggjöf taki gildi á Evrópska efnahagssvæðinu þá árréttuðu Evrópusamtök verslunar (EuroCommerce), sem SVÞ eru aðili að, fyrr í vikunni mikilvægi þess að fyrirtæki grípi til aðgerða til að tryggja eftirfylgni með þeim breytingum. EuroCommerce hafa þegar birt upplýsingabækling sem varpar ljósi á helstu breytingar sem framundan eru og má nálgast þær leiðbeiningar inni á heimasíðu samtakanna á eftirfarandi vefslóð: Data Protection Guide – EuroCommerce

Til frekari undirbúnings vegna boðaðra breytinga hafa fulltrúar EuroCommerce átt fundi með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sér í lagi þeim framkvæmdastjórum sem bera ábyrgð á þessum málaflokki, þar sem farið hefur verið yfir ýmis álitamál. Í tilefni þessa er hér með vakin athygli á upplýsingasíðu Evrópusambandsins þar sem finna má ýmsan fróðleik og upplýsingar sem geta komið að notum við þá vinnu að innleiða breytingar í starfsemi fyrirtækja. Þessar upplýsingar má nálgast á heimasíðu framkvæmdastjórnar sambandsins: Data Protection Rules – EU

EuroCommerce hefur boðað að samtökin muni birta frekari upplýsingar og annað efni í mars nk. til tryggja bæði eftirfylgni innan verslunargeirans sem og aukna vitundavakningu um það breytta landslag sem framundan er í þessum málum.