Í desember 2011 sendu SVÞ kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins sem að mati samtakanna hafi ekki verið í samræmi við þá löggjöf. Íslenskar reglur fela þannig í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða því að sækja um sérstakt leyfi til innflutnings á þessum vörum og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins hvað varðar frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að íslensk löggjöf hvað varðar innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins sem staðfesti einnig ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.
Þessu til viðbótar liggur fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá nóvember 2016 um ólögmæti þessara innflutningstakmarkana. Var það aðildarfélag SVÞ sem lét reyna á umræddar takmarkanir í því máli. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar. Nú liggur fyrir að mál þetta er komið á dagskrá Hæstaréttar og verður það tekið fyrir 28. september nk., eða rúmum 4 árum eftir að málið kom fyrst inn á borð héraðsdóms og 7 árum eftir að SVÞ sendu upphaflega kvörtun til ESA – kvörtun sem kom hreyfingu á málið og markaði upphaf þess.
Um leið og SVÞ fagna því að loks fari að sjá fyrir endann á þessu máli þá gagnrýna samtökin tregðu stjórnvalda að bregðast við fyrirliggjandi og vel rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla og eftirlitsaðila í málinu. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.