Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 17. apríl sl.:
Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir
Í hagfræðinni er rætt um harmleik almenninganna (e. tragedy of the commons) þegar einstakir aðilar nýta sameiginlegar auðlindir óhóflega þegar litið er til heildarhagsmuna samfélagsins. Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, lét þá skoðun sína í ljós í ræðu hinn 29. september 2015 að harmleikur væri á sjóndeildarhringnum (e. tragedy on the horizon). Þar vísaði hann til loftslagsmála þar sem vandinn er sá að borgarar dagsins í dag eiga erfitt með að sjá afleiðingar gjörða sinna fyrir þar sem þær munu ekki koma að fullu fram fyrr en næstu kynslóðir hafa tekið við keflinu.
Í ræðu sinni fjallaði Carney um áskoranir sem þessu fylgja en hann telur hættu á að loftslagsbreytingar geti leitt til fjármálakreppu og versnandi lífskjara. Til þess að gefa mynd af harmleiknum í nútímanum telur Carney rétt að upplýsingar um koltvísýringslosun liggi fyrir. Af þeim sökum hefur hann mælst til þess að leiðandi ríki heimshagkerfisins hvetji fyrirtæki til þess annars vegar að upplýsa hreinskilnislega um losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að gera áætlanir um að draga úr umhverfisáhættu. Í ræðu Carney, þar sem hann fjallar um loftslagsmál og fjármálakerfið og ber ensku yfirskriftina „A global approach to sustainable finance“ segist hann fullviss um vangetu leikenda á fjármálamarkaði til að leiða umbreytingar hagkerfisins í átt til minni koltvísýringslosunar.
Carney telur lykilatriði að ríkisstjórnir setji leikreglur og skapi umgjörð um loftslagsmál sem einkageirinn geti tekið mið af við ákvarðanatöku um fjárfestingar. Þó að Carney ætli stjórnvöldum þannig leiðandi hlutverk leggur hann hins vegar áherslu á að fjármálamarkaðir verði að leggja sitt af mörkum. Þá telur hann skynsamlegt að ríkt tillit sé tekið til umhverfisáhættu við greiningu kerfisáhættu.
Þung áhersla á aðgerðir
Í ljósi smæðar og öfgakenndra hagsveiflna í íslensku hagkerfi er afar mikilvægt að hafa augun á þróun helstu áhættuþátta hverju sinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð þung áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu en um þessar mundir eru 197 ríki aðilar að því og svo virðist sem 185 þeirra hafi lokið við að fullgilda það.
Með samkomulaginu er stefnt að því að halda hlýnun jarðar vel innan við 2 gráður á öldinni, bæta aðlögunargetu fyrirtækja og stofnana og tryggja að fjármagn flæði í þróunarverkefni sem eru loftslagsvæn. Þar kveður við nýjan tón í þeim skilningi að ætlunin virðist að hvetja til mun meiri samdráttar koltvísýringslosunar en áður, atvinnulífinu er ætluð virk þátttaka og áformað er að nýta markaði til að ná árangri.
Alþjóðastofnanir kalla eftir því að losun gróðurhúsalofttegunda verði rétt verðlögð á skilvirkum mörkuðum og þannig verði fyrirtæki hvött til þróunar í átt til loftslagsvænni lausna. Efndir skuldbindinga samkvæmt samkomulagi kalla á verulegar umbreytingar og í því felast áskoranir. Ef rétt er haldið á spilunum felast hins vegar einnig töluverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í þeim breytingum sem efndirnar hafa í för með sér.
Íslenskur fjármálamarkaður
Gerð íslenska hagkerfisins kallar á að tekið sé tillit til umhverfisáhættu við gerð áfallasviðsmynda fyrir íslenskan fjármálamarkað. Gera má ráð fyrir að sú áhætta birtist um þessar mundir einkum sem umbreytingaráhætta (e. transition risk) vegna óljóss kostnaðarauka sem fyrirtæki gætu þurft að takast á við vegna breytinga á starfs- og rekstrarháttum í ljósi hertra umhverfiskrafna.
Ef við bregðumst ekki við með réttum hætti með vel undirbúnum aðgerðum munu tekjuáföll og glötuð tækifæri hafa ófyrirséðar afleiðingar. Allt útlit er fyrir að staða loftslagsmála eigi eftir að hafa mikil áhrif annars vegar á daglegan rekstur fyrirtækja og hins vegar á fjárfestingaákvarðanir. Það er því skynsamlegt og í mörgum tilvikum orðið löngu tímabært fyrir fjárfesta og fyrirsvarsmenn fyrirtækja að taka tillit til loftslagsmála við undirbúning fjárfestingar- og stefnumótunarákvarðana.
Stjórnendur efnahagsmála hafa sýnt merkjanlegan og aukinn áhuga á að tryggja að íslenska fjármálakerfið ráði við umbreytingar í víðum skilningi. Möguleikar fjármálakerfisins til að takast á við áföll virðast um þessar mundir mun betri en oft áður. En betur má ef duga skal. Það ríður á að íslensk stjórnvöld og seðlabanki átti sig á í sameiningu á stóru myndinni af því hvernig íslensk fyrirtæki geta lagað sig á skilvirkan hátt að umbreytingum vegna loftslagsmála. Með öðrum orðum verða stjórnendur efnahagsmála að senda frá sér sem skýrust skilaboð sem fyrirtæki geta tekið tillit til við áætlanagerð.
Gera verður ráð fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum kalli á mikið fjármagn sem mun að mestu leyti koma beint eða óbeint frá einkageiranum. Í því samhengi mun áhugi fjárfesta og fjármálastofnana á fjármögnun ráðast af þeim áhættum sem henni fylgja, þ.m.t. áhættu vegna ófyrirséðra breytinga á leikreglum og beitingu efnahagslegra hvata til aukinna fjárfestinga. Hagstæð fjármögnun mun aðeins nást undir fyrirsjáanlegum kringumstæðum.
Sérfræðingar frá háskólanum í Cambridge hafa bent á þrjá þætti sem þeir telja ráða miklu um hve berskjölduð fyrirtæki eru vegna breytinga á leikreglum um loftslagsmál: a) Losun í starfsemi fyrirtækis, b) óbein losun í aðfangakeðju fyrirtækis og þá sérstaklega vegna notkunar jarðefnaeldsneytis, og c) losun vegna notkunar á vöru og þjónustu sem fyrirtæki selur.
Þörf á markvissum aðgerðum
Ljóst er að þörf er á markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi er samþætting loftslags- og tæknistefnu mikilvæg. Erlendis munu stjórnvöld líklega einkum beina aðgerðum sínum að starfsemi sem felst t.d. í námurekstri, olíuvinnslu og orkufrekum iðnaði. Aðgerðirnar verða væntanlega í formi reglusetningar eða -breytingar eða annarra aðgerða sem munu hafa mikinn kostnað í för með sér.
Það getur ekki talist óábyrgt að ætla að þær atvinnugreinar sem óundirbúnar verða fyrir mestum umbreytingaráhrifum geti lent í svipaðri stöðu og fjármálageirinn eftir áföll alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Með fyrirsjáanleika að leiðarljósi þurfa stjórnendur efnahagsmála að senda atvinnulífinu skýr og samræmd skilaboð þannig að einkageirinn hafi möguleika á að tileinka sér nýja hugsun í fjárfestingum og fjármögnun verkefna.
Geirar atvinnulífsins búa við mismikla umbreytingaráhættu. Augljóst er að námuvinnsla, raforkuframleiðsla úr jarðefnaeldsneyti og olíuiðnaður lenda í hæsta áhættuflokki. Áhættan kann svo að smitast yfir á skuldabréfamarkaði þar sem skuldabréf útgefin af þessum fyrirtækjum eru seld. Þau fyrirtæki sem menga mest eru hins vegar í bestum færum til þess að bæta sig og því kann samstarf við stjórnendur þeirra að vera lykillinn að lausn sem skilar góðum árangri. Fjárfestar geta haldið stöðum í þessum greinum en freistað þess á móti að hafa áhrif á stjórnendur í átt til minni losunar.
Gróðurhúsalofttegundir verðlagðar
Stjórnvöld geta verðlagt losun gróðurhúsalofttegunda og með því haft áhrif á kauphegðun neytenda. Með því móti verða framleiðendur óhjákvæmilega að takast á við neikvæð ytri áhrif framleiðslunnar. En skilaboðin verða að vera skýrari því enn er kolefnisskattlagning opin fyrir þeirri gagnrýni að vera bara enn ein skattlagningin.
Þá ættu stjórnvöld að styrkja stoðir þeirra geira sem vinna hvað harðast að loftslagsjákvæðum tæknibreytingum.Benda má að Alþjóðaorkumálastofnunin (e. International Energy Agency – IEA) hefur gefið út leiðbeiningar um hagkvæm stýritæki sem henta í hverju tilfelli. Stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að auka þekkingu á stöðu tækniþróunar á sviði losunarmála.
Með vel ígrunduðum aðgerðum geta stjórnvöld dregið úr áhættu sem tengist þróun tækninýjunga en smám saman dregið úr stuðningi sínum og hleypt tækninni óstuddri í samkeppnisumhverfi. Stuðningur stjórnvalda ætti þannig að vera ríkur í upphafi, dragast hægt og rólega saman og falla niður um það leyti þegar tæknin verður samkeppnishæf eða þegar ljóst er að tækniþróun skilar ekki tilætluðum árangri. Mat á virkni aðgerða kallar óhjákvæmilega á losunarbókhald í einhverri mynd.
Í ljósi framangreinds má benda á að Evrópusambandið hefur ýtt undir þróun markaða fyrir græn skuldabréf. Á þeim veita fjárfestar lán til fyrirtækja gegn skuldbindingum um að lánsfjármunir verði nýttir í umhverfisvænum tilgangi. Mikil aukning hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa síðustu ár. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) beitt sér fyrir samræmdri verðlagningu losunar og mælst til þess að aðildarríkin leggi mat á losunaráhrif við fjárlagagerð (e. Green budgeting). Alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki bjóða þegar upp á aðstoð við gerð græns bókhalds sem hefur þann tilgang að kortleggja umhverfisáhættuþætti og gera fyrirtækjum mögulegt að undirbúa breyttar áherslur.