Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Fréttablaðið þann 27. ágúst:

Flestir eru á þeirri skoðun, að til þess að höfuðborg standi undir nafni, þurfi að vera þar öflugt atvinnulíf. Borg án fyrirtækja sé fábrotinn staður. Blómstrandi fyrirtæki leiði af sér blómstrandi mannlíf. Fyrirtækin, af öllum stærðum og gerðum, hafa augljóslega miklu hlutverki að gegna við þá sem þar búa og þá sem heimsækja höfuðborgina. Þau geta kallast andlit borgarinnar út á við. Þetta er a.m.k. sú stefna sem höfuðborgir nágrannalanda okkar leitast við að halda í heiðri. Öflug fyrirtæki, ekki síst í miðborg, taka vel á móti gestum og gangandi og veita fólki þá tilfinningu að þangað sé gott að koma.

Það er ekki alveg víst að þessi lýsing passi við miðborg Reykjavíkur nú um stundir. Ítrekað berast fréttir af fyrirtækjum í rekstrarvanda, það miklum að þau neyðast til að hætta starfsemi. Ítrekað berast kvartanir frá fyrirtækjum um samráðsleysi, ekki síst við verklegar framkvæmdir. Og það sem verst er, þá er þessi lýsing ekki ný af nálinni, þetta er ástand sem varað hefur í alltof langan tíma. Tilfinning margra þeirra sem stunda atvinnurekstur í miðborginni er, að þeim sem fara með stjórnartaumana í höfuðborg Íslands, sé fyrirmunað að eiga eðlileg samskipti. Skilningsleysi á atvinnurekstri og þörfum hans, er mikið meðal þeirra sem með stjórn borgarinnar fara, á því er ekki nokkur vafi.

En það er ekki aðeins á samskipasviðinu sem pottur er brotinn. Reykjavíkurborg, sem stærsta sveitarfélag landsins, er sér á báti þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Þar sem meirihluti alls atvinnuhúsnæðis á landinu er í höfuðborginni, rennur meirihluti alls fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði til borgarsjóðs Reykjavíkur. Borgin heldur áfram hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts 2019, öfugt við mörg nágrannasveitarfélög. Eins og öllum má ljóst vera vegur þessi mikla skattheimta sífellt þyngra í rekstri fyrirtækja og með sama áframhaldi munu þau fyrirtæki sem þess eiga kost, leita annað með atvinnurekstur sinn.

Stjórnendur borgarinnar verða að gera sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem á þeim hvílir. Flókin og úrelt stjórnsýsla hefur lamandi áhrif á allt atvinnulíf í borginni. Embættismannakerfi, sem lifir í eigin heimi, gerir ógagn frekar en gagn. Skattheimta, sem er úr öllu hófi, letur fólk og fyrirtæki til athafna. Stjórnendur borgarinnar hafa öll ráð í hendi sér til að snúa þessari öfugþróun við.