Andrés Magnússon skrifar í Kjarnann, 29. desember sl.:
Fyrirtæki í verslun og þjónustu standa nú frammi fyrir meiri og stærri breytingum í öllu rekstrarumhverfi sínu, en nokkru sinni fyrr. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar (e. X and Y generation) og breytt krafa hennar til þjónustu hvers konar mun hafa og hefur raunar þegar haft í för með sér miklar breytingar í verslun og þjónustu. Breytingar þessar gerast svo hratt að menn mega hafa sig allan við að fylgjast með og óhætt er að fullyrða að breytingarnar munu gerast á enn meiri hraða á allra næstu árum. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til annars.
En hvaða breytingar eru handan við hornið? Það eru fjölmörg stór viðfangsefni sem fólk í þessum atvinnugreinum stendur nú frammi fyrir. Meðal annars má nefna:
- Gervigreind (e. artificical intellegence) er notuð í sífellt meira mæli til að koma til móts við þarfir viðskiptavina. Hversu hratt og vel geta íslensk fyrirtæki nýtt sér þessa tækni með hagkvæmum hætti?
- Neytendur nota í auknum mæli raddleit og raddstjórnunartækni (e. voice-recognition). Nú þegar eru stjórnvöld að vinna að því að tryggja að Íslendingar geti notað móðurmálið með þessari nýju tækni. En hvernig geta íslensk fyrirtæki nýtt sér hana sem best og tryggt að þau séu samkeppnishæf við risa á borð við Amazon og Google?
- „Blockchain“ tæknin mun halda áfram að þróast. Mun hún verða í auknum mæli nýtt til að rekja ferli vöru frá seljanda til kaupanda og hvernig munu íslensk fyrirtæki geta nýtt hana til þess?
- Verða vélmenni meginhluti vinnuaflsins í vöruhúsum á allra næstu árum?
- Verða alþjóðlegir risar á borð við Amazon og Alibaba alls ráðandi í viðskiptum á næstunni? Hlutdeild þeirra er þegar orðin ískyggilega mikil að margra mati.
- Munu verslunarmiðstöðvar í þeirri mynd sem við nú þekkjum umbreytast eða jafnvel hverfa?
Allt eru þetta mál sem þegar eru ofarlega í umræðunni innan verslunar- og þjónustugeirans í nágrannalöndum okkar. Fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu á Íslandi er lífsspursmál að vel með þróuninni og aðlaga sig að þessari nýju tækni og þessum stóru breytingum til að viðhalda samkeppnisstöðu sinni.
Allt þetta leiðir okkur svo að því stóra og aðkallandi máli; Hvernig er menntakerfið okkar í stakk búið að takast á við þann nýja veruleika sem við blasir? Þær breytingar sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni munu kalla á breytta hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika. Og menntakerfið verður að bregðast strax við, ekki eftir tvö ár eða tíu, því tækniþróunin í atvinnulífinu geysist áfram á ógnarhraða.
Rétt viðbrögð menntakerfisins við þeim breytingum sem við blasa, skipta sköpum um það hvernig íslenskum fyrirtækjum í verslun og þjónustu mun reiða af í þeim breytta veruleika sem við blasir. Þarna verða allir að stefna í sömu átt, stjórnvöld, samtök atvinnurekenda og samtök launþega. Þetta er hin stóra áskorun sem við blasir í upphafi árs 2019.