Meðstjórnendur í stjórn SVÞ 2019
Í samræmi við ákvæði samþykkta SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu fer fram kosning meðstjórnenda SVÞ í tengslum við aðalfund samtakanna hinn 14. mars nk. Hver félagsaðili fer með atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2018. Hverjum heilum 1.000 krónum í greidd félagsgjöld fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með greiðslu vangoldinna félagsgjalda.
Árlega eru kosnir þrír meðstjórnendur til tveggja ára. Þar sem einn núverandi meðstjórnenda hefur boðið sig fram til formennsku samtakanna og fyrir liggur að hann er sjálfkjörinn verður til viðbótar kosið um einn meðstjórnanda í hans stað fyrir það sem eftir lifir af kjörtímabilinu 2018–2020.
Alls bárust sjö framboð.
Nánari upplýsingar og lykilorð verða send á félagsmenn mánudaginn 4. mars nk. en opnað verður fyrir kosningu þann sama dag.
Í framboði til stjórnar SVÞ eru:
Anna Katrín Halldórsdóttir, Íslandspósti
Anna Katrín er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu sem stjórnandi og ráðgjafi og hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.
„Ég hef mikinn áhuga á að starfa fyrir SVÞ og tel að reynsla mín sem bæði stjórnandi og ráðgjafi ásamt víðtækri þekkingu minni á stjórnun, stefnumótun og þjónustumálum muni koma sér vel fyrir samtökin. Ég hef mikla reynslu og yfirsýn yfir starfsemi þjónustufyrirtækja og hef auk þess starfað náið með fyrirtækjum í smásölu í gegnum flutningageirann. Ég vil leggja áherslu á stafræna þróun í verslun og þjónustu, m.a. hvernig unnt er að nýta hana til að auka framleiðni og bæta þjónustu. Einnig vil ég sjá netverslun á Íslandi þróast í takt við það sem er að gerast á alþjóðavísu en með því eflist íslensk verslun. Ég legg áherslu á að SVÞ haldi áfram að styðja við bakið á og efla netverslun í landinu og tel að þekking mín á slíkri verslun og þróun hennar muni gagnast samtökunum.“
Ari Þórðarson, Hreint ehf.
Ari er framkvæmdastjóri Hreint ehf. sem er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins.
„Ræstingaþjónusta er nokkuð stór og vaxandi þjónustugrein í íslenskum veruleika. Meðal félaga í SVÞ eru allmörg fyrirtæki sem starfa í greininni og hefur er sá hópur vaxandi. Á annað hundrað fyrirtæki eru starfsrækt sem þjónustufyrirtæki á sviði ræstinga og tengdrar þjónustu. Þessi fyrirtæki þjónusta önnur fyrirtæki og stofnanir í landinu og þau veita nokkur þúsundum manna atvinnu. Ætla má að árleg velta fyrirtækja í greininni nemi um 10 milljörðum kr. Innan SVÞ starfar faghópur ræstingarfyrirtækja. Ég hef áhuga á setu í stjórn SVÞ og býð fram krafta mína til starfa á þeim vettvangi.“
Árni Stefánsson, Húsasmiðjunni ehf.
.
Árni hefur starfað sem forstjóri Húsasmiðjunnar frá árinu 2013. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, vörustýringu, sölu- og markaðsmálum. Árni er sitjandi varaformaður SVÞ og hefur gengt þeirri stöðu undanfarið ár.
„Ég hef víðtækan áhuga sölu- og markaðsmálum. Ég tel að íslensk verslun eigi að njóta laga- og rekstrarumhverfis sem tryggir og styður við hæfni hennar gagnvart sívaxandi erlendri samkeppni. Jafnframt mun ég beita mér fyrir því að íslenska menntakerfið bjóði ungu fólki fleiri áhugaverða valkosti til sérmenntunar á sviði verslunar og þjónustu.“
Guðjón Sigurbjartsson, HEI ehf.
Guðjón er framkvæmdastjóri HEI ehf. sem starfar í ferðatengdri heilbrigðisþjónustu. Áður rak Guðjón fyrirtækið Tanni auglýsingavörur ásamt konu sinni Guðrúnu Barböru í um 20 ár. Þar á undan var Guðjón m.a. fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur og yfirmaður fjármála og rekstrardeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
„Ég er viðskiptafræðingur og hef áhuga á stjórnmálum. Ég hef þekkingu á landbúnaðarmálum og styð frekari þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu. Ég styð umbætur í landbúnaði með hag almennings að leiðarljósi og hef með greinarskrifum í dagblöðum m.a. beitt mér fyrir sjónarmiðum neytenda. Ég tel tollvernd landbúnaðarvara rýra lífskjör íslendinga og er tilbúinn til að beita mér fyrir umbótum á því sviði.“
Guðrún Jóhannesdóttir, Kokku ehf.
Guðrún er framkvæmdastjóri Kokku ehf. Guðrún hefur verið í verslunarrekstri við Laugaveg frá árinu 2001 auk þess sem hún hefur rekið verslanir í Kringlunni og Smáralind. Hún situr í stjórn heildverslunarinnar Lifu ehf. og er stjórnarformaður Rannsóknarseturs verslunarinnar.
„Miklar breytingar eru að eiga sér stað á verslun og störfum innan verslunargeirans. Mikilvægt er að íslensk verslun hafi tækifæri til að fylgja þeirri þróun. Þörf er á bættri tölfræði, aðgangi að starfsmenntun og auknu upplýsingaflæði. Ég vil vera rödd minni fyrirtækja innan SVÞ og vinna að bættu rekstarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“
Kjartan Örn Sigurðsson, Verslanagreiningu ehf.
Kjartan Örn er framkvæmdastjóri Verslanagreiningar ehf. sem hefur starfað með mörgum af stærstu verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins. Kjartan Örn hefur haldgóða reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja á smásölumarkaði á Íslandi og erlendis.
„Ég bý að reynslu af stjórnarsetu m.a. í SVÞ og SA. Ég er menntaður stjórnmálafræðingur með MBA próf frá Háskóla Íslands og hef haldgóða reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja á smásölumarkaði á Íslandi og Bretlandi síðastliðinn aldarfjórðung. Samhliða stöfum mínum fyrir Verslanagreiningu ehf. er ég starfandi meðeigandi hjá heilsölufyrirtækinu SRX ehf. og tryggingafyrirtækinu Viss. Ég var áður forstjóri Egilsson hf., eigandi Kvosarinnar, framkvæmdastjóri hjá Strax í evrópu og markaðsstjóri hjá B&L. Ég vil standa vörð um og efla vörumerkið íslensk verslun og samstarf aðila á markaði og er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til þessa verkefnis.“
Ómar Þorgils Pálmason, Aðalskoðun hf.
Ómar Þorgils Pálmason er eigandi Aðalskoðunar hf. og arekstur.is sem hann stofnaði fyrir 11 árum. Ómar hefur mikla reynslu af frumkvöðlavinnu, markaðssetningu og rekstri fyrirtækja.
„Ég vil hafa gott jafnvægi milli stórra og minni fyrirtækja í stjórn SVÞ. Lykillinn að skilvirku starfi samtakanna er að í stjórnin veljist sem breiðastur hópur karla og kvenna sem starfa bæði við verslun og þjónustu. Nú sem aldrei fyrr en nauðsynlegt að standa vörð um þessa tvo lykilþætti.“