Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður samtakanna.
Margrét hefur verið formaður SVÞ síðan 2014 og hefur margt áunnist á þeim tíma. Ber þar hæst niðurfelling tolla og vörugjalda á árunum 2015-2017. Margrét hefur sett menntun í atvinnulífinu í forgang og er afrakstur þess meðal annars ný og spennandi námsbraut til stúdentsprófs sem hefst í Verslunarskóla Ísland í haust.
Í störfum sínum hjá SVÞ hefur Margrét unnið ötullega að því að bæta rekstrarskilyrði einkareksturs í heilbrigðisþjónustu og skólamálum auk þess að víkka út starfsemi þjónustugeirans og tala fyrir auknum útboðum verkefna hjá hinu opinbera til einkaaðila.
Innan SVÞ og Samtaka atvinnulífsins hefur Margrét lagt mikla áherslu að nútímavæða vinnumarkaðinn og auka sveigjanleika vinnutíma til hagsbóta fyrir starfsfólk og atvinnurekendur.
Margrét mun láta af formennsku á aðalfundi SVÞ 14. mars næstkomandi.