Að gefni tilefni benda SVÞ á að ný persónuverndarlög taka gildi hér á landi 15. júlí nk. Óvissu vegna íslenskra fyrirtækja hefur þar með verið eytt en regluverk Evrópusambandsins (GDPR) tók gildi 25. maí sl. í Evrópusambandinu. Samtök atvinnulífsins ásamt Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands sendu inn ítarlegar umsagnir um frumvarpið á meðan það var í meðförum dómsmálaráðherra og Alþingis.
Tekið var tillit til fjölmargra athugasemda samtakanna á meðan málið var til meðferðar. Má þar einkum nefna að sett var inn regla um að vinnugögn verða áfram undanþegin upplýsinga- og aðgangsskyldu, gjaldtökuheimild var þrengd og heimildir til vinnslu persónuupplýsinga um látna einstaklinga voru rýmkaðar. Íslensku lögin eru þó eftir sem áður meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en almennt gerist annars staðar á EES-svæðinu. Mikilvægt er því að lögin verði endurskoðuð í haust.
Í ljósi þess skamma frests sem fyrirtæki fá til að undirbúa sig fyrir hina nýju löggjöf er afar mikilvægt að Persónuvernd setji fræðslu- og leiðbeiningarhlutverk sitt í forgrunn og gæti hófs við beitingu viðurlaga. SVÞ vekja einnig athygli að Persónuvernd hefur sett á fót þjónustuborð fyrir fyrirtæki í tengslum við innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar. Þjónustuborðið er ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem óska leiðbeininga í tengslum við innleiðingu löggjafarinnar og mun Persónuvernd leitast við að svara öllum þeim erindum sem berast þjónustuborðinu innan þriggja til fimm virkra daga. Nánari upplýsingar um þessa þjónustu er að finna á heimasíðu Persóunverndar.
Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér vel þær breytingar sem eru í vændum og vera sem best undirbúin þegar lögin taka gildi. Fyrirtæki innan SVÞ geta nýtt sér fræðsluefni á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins við undirbúninginn.