Hægt er að senda inn tilnefningar fyrir Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fram til 14. september næstkomandi með tölvupósti á sa@sa.is merkt: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.
Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu miðvikudaginn 17. október. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. Það er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhendir verðlaunin. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.
Icelandair hótel var valið umhverfisfyrirtæki ársins 2017 og Landsnet átti framtak ársins á sviði loftslagsmála 2017 fyrir snjallnet á Austurlandi. Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru fyrst afhent árið 2015 þegar Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki hlaut umhverfisverðlaunin og Orka náttúrunnar fékk viðurkenningu fyrir framtak ársins.
Dómnefnd velur úr tilnefningum og skoðar meðal annars eftirfarandi þætti:
Umhverfisfyrirtæki ársins:
Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
Innra umhverfi er öruggt
Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið
Framtak ársins:
Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar
Hér er viðburðurinn fyrir Umhverfisdag atvinnulífsins 2018 á Facebook.
Á vef SA er hægt að skoða myndbandsupptöku frá Umhverfisdegi atvinnulífsins 2017.