SVÞ hafa undanfarin ár gætt hagsmuna aðildarfyrirtækis samtakanna í samskiptum við stjórnvöld vegna kaupa á rafrænum sjúkraskrám. Að mati SVÞ hafa þau kaup á þjónustu í gegnum tíðina, frá einum og sama aðila, orkað tvímælis hvað varðar eftirfylgni með kröfum um opinber innkaup. Þá hafa þau kaup utan útboðs einnig haft skaðleg áhrif á samkeppni á markað með rafrænar sjúkraskrár.
Nú síðast kom til skoðunar álitamál er varða kaup Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á tölvukerfi vegna Veru – heilsuvef, þ.e. www.heilsuvera.is. Óskuðu SVÞ þá þegar eftir upplýsingum um þau kaup og fjárhæðir sem lágu þar að baki. Hins vegar var neitað um afhendingu á þeim gögnum en þeirri synjun var síðar snúið við af úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá þegar og umbeðin gögn voru afhent lá fyrir að mati SVÞ og aðildarfyrirtækis þess, þ.e. Skræðu ehf., að ríkið hafi virt að vettugi útboðsskyldu sína vegna þeirra kaupa enda kostnaður við kaupin yfir útboðsskyldu.
Í kjölfarið sendu SVÞ, f.h. Skræðu ehf., kæru á kærunefnd útboðsmála þar sem þess var óskað að nefndin tæki máli til skoðunar sem og hún gerði. Efir yfirgripsmikla rannsókn á málinu, þar sem aðilar málsins voru m.a. boðaðir á fund nefndarinnar, komst kærunefndin að skýrri niðurstöðu að samkvæmt þeim kostnaði sem kaup á kerfinu og viðhald á því kallaði á bar Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að bjóða út gerð þess á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við þau innkaupaferli með lög um opinber innkaup kveða á um. Þar sem það var ekki gert brutu þessir aðilar gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Þar að auki var Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gert að greiða málskostnað, alls að upphæð 900.000 kr.
Að mati SVÞ er mikilvægt að hið opinbera virði af fullum hug reglur um opinber innkaup og raski um leið ekki samkeppni á einstökum mörkuðum með því að skjóta sér undan þeirri skyldu sinni. Munu samtökin áfram fylgjast með framkvæmd þessara mála og grípa til aðgerða gerist þess þörf.