Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sagði í fréttaviðtali hjá RÚV rétt í þessu að ekkert benda til þess að það dragi úr verðhækkunum næstu mánuði. Hrávöruverð á heimsmörkuðum sé í sögulegu hámarki. Seðlabankinn eigi engin tól gegn því.

Þá benti Andrés á að heimsmarkaðsverð á hrávöru, hvaða nafni sem hún nefnist, hefur hækkað fordæmalaust á einu og hálfu ári. Þar sé skýringa að leita á hækkun vöruverðs. Verðbólgudraugurinn hafi vaknað á ólíklegustu stöðum, jafnvel í Þýskalandi sem þekkt sé fyrir flest annað en verðbólgutölur. Hann segir samtökin margsinnis hafa bent á hvað væri í aðsigi og nú komi verðbólgan í andlitið á okkur.

„Við höfum ekki séð svona hækkanir á friðartímum, það er bara þannig. Allir indexar, allar vísitölur, allar hrávöruvísitölur staðfesta það. Það getur engum dottið það í hug að fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, hvaða nafni sem þau nefnast, geti tekið þetta á sig. Það er skrifað í skýin að þegar svona miklar hækkanir verða á innkaupsverði þá hefur það áhrif á verðlag, það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum“ bætir Andrés við.

SJÁ FRÉTT Á RÚV HÉR