Samantekt
Sænski seðlabankinn birti í peningamálaskýrslu greiningu á mögulegum áhrifum stafrænnar tækniþróunar á verðbólgu. Í greiningu bankans kemur m.a. fram að þróunin hafi dempandi áhrif á verðbólgu en óvíst sé hversu mikil áhrifin eru. Það er mat bankans að lág verðbólga í Svíþjóð sé þó fyrst og fremst tengd öðrum þáttum. Samfara tækniþróuninni geta orðið breytingar í þá átt að mörg störf tapist í ákveðinni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Á sama tíma opnast möguleikar á starfi annarsstaðar í hagkerfinu. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem kunna að opnast. Stafræna tækniþróunin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.