Á vel heppnuðum fundi, sem fjögur samtök í atvinnulífinu héldu með þátttöku frambjóðenda helstu framboðanna í Reykjavík, í aðdraganda nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga,  bar margt á góma. Fjölmörg hagsmunamál er varða samskipti atvinnulífs og borgaryfirvalda voru þar tekin til umfjöllunar. Eitt þeirra var viðhorf framboðanna til Sundabrautar, en það vakti sérstaka athygli að nær öll framboðin voru þeirrar skoðunar að ráðast ætti í þá stóru framkvæmd.

Sundabraut er búin að vera á inni á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá 1984. Þegar fyrri umræður um málið eru skoðaðar,  kemur í ljós að þessi framkvæmd hefur jafnan notið almenns stuðnings, bæði borgaryfirvalda og þeirra ráðherra sem farið hafa með samgöngumál.  Ekki þarf að fjölyrða um ástand samgöngukerfisins og þann mikla umferðarþunga sem er á vegunum nú 34 árum eftir að Sundbraut kom fyrst á aðalskipulag.  Það má segja að ástandið sé nú orðið að stóru vandamáli, bæði út á þjóðvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan borgarinnar. Þegar horft er til þeirrar miklu aukningar á umferð til og frá borginni á undanförnum árum, bæði vegna vöruflutninga og ekki síður vegna fólksflutninga verður að teljast sérkennilegt að ekkert hafi gerst allan þennan tíma. Sennilega er engin ein samgönguframkvæmd hér á landi eins aðkallandi og Sundabraut.

Á síðustu tuttugu árum hefur samgöngukerfið til og frá Sundahöfn og Vogabakka ekkert breyst, engar umtalsverðar lagfæringar eða viðbætur. Sæbrautin er einfaldlega löngu sprungin, en um þá samgönguæð fara nær allir vöruflutningar til og frá landinu, ef frá er skilið eldsneyti og framleiðsla stóriðjuvera. Því til viðbótar fara um Sæbraut þeir 130 þúsund ferðamenn sem koma til landsins á hverju ári með skemmtiferðaskipum. Nýlegar kannanir sýna að ferðatími innan höfuðborgarsvæðisins er að aukast með tilheyrandi kostnaði og óþægindum bæði fyrir íbúana og atvinnulífið í borginni.

Öll rök í þessu máli hníga í eina átt. Pólitískur vilji er til staðar. Þörfin fyrir framkvæmdinni fyrir atvinnulíf og íbúa liggur í augum uppi. Kominn er tími á athafnir í stað orða.