Ísland hefur tekið undir allar pólitískar yfirlýsingar ESB undanfarna daga varðandi þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Við höfum þannig skuldbundið okkur til þess að láta sömu reglur gilda hér á landi.

Innleiðingarferli á Íslandi

Þvingunaraðgerðir eru innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.

Á vef stjórnarráðsins er að finna lista yfir alþjóðlegar þvingunaraðgerðir í gildi á Íslandi. Reglugerðum er sífellt bætt við eftir því sem þær eru innleiddar. T.d. má fara í landalista og velja plúsinn við Rússland, Úkraínu eða Belarús til að sjá lista yfir reglugerðarbreytingar.

Á vefslóðinni má skrá sig á póstlista og þá berst tölvupóstur hvert sinn sem ný reglugerð um þvingunaraðgerðir er birt á Íslandi.

Ísland innleiðir ESB gerðirnar og tryggir þannig einsleitni með ESB. Þannig eru efnislegar gerðir ESB birtar þýddar í viðaukum (ath. að smella þarf á PDF útgáfu skjalsins til þess að sjá viðaukana). Þegar eingöngu er um að ræða breytingar á listum yfir aðila sem sæta þvingunaraðgerðum, eða breytingar á listum yfir tækni, hluti og annað, er vísað til birtingar í Stjórnartíðindum ESB og gefin upp vefslóð í viðauka við reglugerðina.

EU Sanctions Map sem ESB heldur úti veitir aðgengilegt yfirlit um gildandi aðgerðir, hefur krækjur á gerðir þar sem allar breytingar hafa verið felldar inn og þannig eru þær aðgengilegri (consolidated versions). Á þessari síðu má slá upp nöfnum á einstaklingum og lögaðilum og kanna hvort þeir séu á lista hjá ESB. Ef svo er eru mjög miklar líkur á að sá listi sé í gildi hér á landi, eða muni fljótlega taka gildi. Aðgerðirnar varða Úkraínu, Rússland og Belarús.

Unnið er að innleiðingu á þvingunaraðgerðum sem samþykktar hafa verið undanfarna daga og birtist fyrsta reglugerðin 28. febrúar í Stjórnartíðindum. Þessi reglugerð er breyting á gildandi reglugerð nr. 281/2014 um þvingunaraðgerðir varðandi Úkraínu með síðari breytingum, og innleiðir fyrsta pakka þvingunaraðgerða ESB sem birtur var í Stjórnartíðindum ESB 23. febrúar sl. Sá pakki var settur í kjölfar viðurkenningar á svæðunum tveimur, Luhansk og Donetsk, og fyrirskipana um að herlið skuli fara inn á svæðin. Gerðir ESB sem innleiddar eru með þessari reglugerð eru breytingar á gildandi ESB gerðum gegn Rússlandi vegna Úkraínu síðan 2014, fyrir utan tvær nýjar gerðir sem bættust við vegna svæðanna tveggja.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur birt fréttatilkynningu á vef sínum til þess að árétta skyldu tilkynningarskyldra aðila skv. a-k lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til að fylgja lögum nr. 64/2019 um frystingu fjármuna o.fl. Sjá frétt Seðlabanka Íslands um auknar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi.
Inntak þvingunaraðgerða ESB sem eru í innleiðingu á Íslandi vegna innrásarinnar

Ísland tekur fullan þátt í þvingunaraðgerðum ESB og eru þær innleiddar með reglugerðum eins fljótt og unnt er.

SJÁ NÁNARI ÚTFÆRSLU Á VEF STJÓRNARRÁÐSINS