Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 29. maí sl.:
Umhverfi þeirra sem vinna við smásölu breytist hratt um þessar mundir. Á sama tíma og hlutfall atvinnulausra lækkar í Bandaríkjunum og störfum fjölgar á heildina litið í apríl um rúmlega fjórðung úr milljón fækkar störfum í smásölu þó velta hafi aukist.
Upplýsingar um þróun starfa í Bandaríkjum gefa glögga mynd af þeirri hröðu þróun sem á sér stað um þessar mundir í verslun og þjónustu. Grunngerð verslunarinnar er að breytast, m.a. vegna aukinnar netverslunar og annarra tengdra tæknibreytinga. Unnt er að greina áhrif bandarísku uppsveiflunnar á marga mismunandi vegu eftir því hvaða atvinnugrein á í hlut en upplýsingar um hlutfall atvinnulausra eftir atvinnugreinum gefa ágæta vísbendingu um hvert stefnir í þeim efnum.
Þegar heildarsamhengið er skoðað virðast þau störf sem skapast samfara aukinni smásöluverslun vegna góðs efnahagsástands einkum hafa orðið til í starfsemi sem flokkast undir vöruflutninga og vörugeymslu. Þetta bendir til þess að smásölustarfsemi sé í auknum mæli að færast yfir á netið og að stórir smásöluaðilar hafi í auknum mæli beint sjónum að rekstri vörugeymslu- og dreifingarmiðstöðva í stað hefðbundinna smásöluverslana. Þeir geta þannig jafnvel sleppt því að reka hefðbundnar sölubúðir. Afleiðingin er sú, að í stað þess að aukin umsvif í smásölu komi fram í auknum umsvifum í hefðbundnum verslunum, aukast vöruflutningar og umsvif í vörugeymslum (tiltektir og frágangur sendinga) í takt við stóraukin umsvif netverslananna.
Það er eðlilegt að undrun séu fyrstu viðbrögð margra við þessari þróun. Það er jafnframt eðlilegt að þeir sem þekkja vel til hefðbundins verslunarreksturs spyrji hvort þróunin sé alfarið af hinu góða. Þegar litið er til framþróunar í atvinnugreinum og þeirra áhrifa sem slíkar breytingar hafa á þjóðfélög og efnahagslíf virðast kostir netbundinnar verslunar yfirgnæfandi. Leiguverð vörugeymslu er mun lægra en leiguverð verslunarhúsnæðis í miðborgum eða í verslunarkjörnum. Auðveldara er að nýta sjálfvirkni í netbundinni verslun en í hefðbundinni verslun. Ný framleiðslutækni eykur jafnan framleiðni vinnuaflsins og aukin sjálfvirkni í framleiðslu getur lækkað kostnað fyrirtækja og þar með verðlag. Samhliða þessu verða oft til ný störf ásamt tilfærslu á vinnuafli milli atvinnugreina.
Þrátt fyrir þá óvissu sem verið hefur í Bretlandi vegna BREXIT hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist í Bretlandi að undanförnu. Atvinnustig þar er nú afar hátt í sögulegu samhengi. Samkvæmt gögnum frá systursamtökum SVÞ í Bretlandi (British Retail Consortium/BRC) fækkaði störfum í smásölu hins vegar á fjórða ársfjórðungi 2018 og fyrsta ársfjórðungi 2019. Er þá byggt á upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum BRC sem saman telja rúman fimmtung af veltu á breskum smásölumarkaði. Tölurnar endurspegla leitni niður á við í smásölu sem einnig má sjá í gögnum bresku hagstofunnar. Eins og í Bandaríkjunum er atvinnuþróun í breskri smásöluverslun önnur en í hagkerfinu í heild en um þessar mundir er atvinnuþátttaka með því mesta sem um getur. Ástæðan virðist vera sú að smásölugeirinn þar er að ganga í gegnum sömu breytingar og í Bandaríkjunum. Ljóst er að ráðast þarf í fjárfestingar til að ná árangri á tímum umbreytinga en hætt er við að hiks gæti þar sem útlit er fyrir kostnaðarútlát vegna óvissu sem ríkir um stefnumörkun stjórnvalda.
Nýir möguleikar
Einhverjum kann að þykja sú þróun sem nú á sér stað í Bretlandi og Bandaríkjunum varhugaverð. Það er hins vegar vafasamt að horfast ekki í augu við framtíðina, láta skeika að sköpuðu, því eins og rakið hefur verið geta breytingar orðið á grunngerð þjóðarbúskaparins samfara tæknivæðingu og mörg störf tapast í einni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Sterkar vísbendingar eru hins vegar uppi um að á sama tíma opnist möguleikar á fjölgun starfa annarsstaðar í hagkerfinu. Það er því full ástæða til að gæta varúðar og undirbúa hraða aðlögun að breytingum og nýjum tækifærum sem skapast. Breytingar í rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu kalla m.a. á nýja hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika.
Þegar áætlanir eru gerðar og ákvarðanir teknar um framkvæmdir þurfa atvinnurekendur að velja milli fleiri eða færri möguleika við notkun á því fjármagni sem er fyrir hendi á hverjum tíma. Jafnan verður margt útundan og annað dregst úr hömlu. Við áætlunargerð þarf ekki aðeins að velja verkefni heldur einnig að ákveða tímasetningu og staðsetningu á markaði. Staðsetning á markaði skiptir oft ekki minna máli en tímasetningar og jafnvel ákvarðanataka um hvort ráðist er í aðgerð eður ei. SVÞ leggja áherslu á mikilvægi þess að fagfólk í verslun og þjónustu verði sem best í stakk búið til að aðlagast fyrirsjáanlegum breytingum og geti nýtt sér tækifæri í heimi stafrænna lausna. Slíkur undirbúningur þarf að eiga sér stað í frum- og endurmenntun sem standi öllum landsmönnum til boða.
Nám á framhaldsskólastigi
Mjór er mikils vísir segir máltækið en næstkomandi haust hefst kennsla á nýrri stafrænni viðskiptalínu á framhaldsskólastigi í Verzlunarskóla Íslands. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaði og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og veitir þeim innsýn í starfsumhverfið en heldur einnig að þeim þeirri hröðu þróun sem á sér stað í verslun og þjónustu um þessar mundir. Með hvata að og aðkomu að undirbúningi þessa náms leggur SVÞ sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta breyttum veruleika í íslenskri smásölu.