UMHVERFISSTEFNA SVÞ
Umhverfisstefna SVÞ er sett fram í samræmi við tilgang samtakanna sem er m.a. að vinna að almennum og sameiginlegum hagsmunamálum aðildarfyrirtækja og að stuðla að framförum í verslun og þjónustu, bættum starfsskilyrðum, aukinni arðsemi og samkeppnishæfni.
Það er meginmarkmið umhverfisstefnu samtakanna að vera aðildarfyrirtækjum okkar og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.
Umhverfisstefnan tekur til annars vegar til innri starfsemi skrifstofu SVÞ og hinsvegar starfsemi samtakanna gagnvart aðildarfélögum, öðrum aðilum innan Húss atvinnulífsins og atvinnulífinu almennt.
Starfsmenn og stjórn SVÞ skulu kynna sér efni stefnunnar og framfylgja henni, og leita sífellt leiða til umbóta í umhverfismálum.
Markmið
- Efla umhverfisvitund starfsfólks og aðildarfyrirtækja og hvetja þau bæði til að bera virðingu fyrir umhverfinu og að vera fyrirmynd og hvatning fyrir aðra innan Húss atvinnulífsins og í íslensku atvinnulífi til að gera slíkt hið sama.
- Endurnýta og endurvinna það sem fellur til í rekstrinum og farga öðru á viðeigandi hátt.
- Orkunotkun verði haldið lágmarki og umhverfisvænir orkugjafar nýttir.
- Mengun verði haldið í lágmarki og í framtíðinni útrýmt.
- Innkaup samtakanna taki mið af umhverfissjónarmiðum og sjálfbærni.
- Umverfisvitund SVÞ félaga sé efld og að samtökin veiti þeim hvatningu og leiðbeiningar til að gera rekstur sinn umhverfisvænan og sjálfbæran án þess að hafa neikvæð viðskiptaleg áhrif.
Leiðir að markmiðum
- Gera skal aðgerðaáætlun til eins árs í senn þar sem leiðir að markmiðum fyrir innra starf skrifstofu SVÞ og aðgerðir eru útlistaðar og ábyrgð á árangri skilgreind. Í þessu felast einnig samskipti við aðra starfsemi í Húsi atvinnulífsins, enda er rekstur skrifstofu SVÞ samofinn annarri starfsemi í húsinu.
- Gera skal aðgerðaáætlun til eins árs í senn þar sem útlistaðar eru aðgerðir samtakanna sem snúa að leiðbeiningu, fræðslu, hvatningu og stuðningi við aðildarfyrirtæki samtakanna.
Ábyrgð
Framkvæmdastjóri SVÞ ber ábyrgð á framkvæmd umhverfisstefnunnar en stjórn skal fylgjast með framkvæmd stefnunnar og endurskoða reglulega. Starfsmenn framfylgja umhverfisstefnunni og hafa hana að leiðarljósi í öllu starfi sínu.
Eftirfylgni og endurskoðun
Umhverfisstefna SVÞ er sett fram til framtíðar en skal endurskoðuð á tveggja ára fresti, eða oftar ef þörf krefur. Aðgerðaráætlanir eru settar fram til eins árs í senn. Árlega skal framkvæmdastjóri gera grein fyrir stöðu umhverfismála í samstæðunni með skýrslu til stjórnar.
Samþykkt af stjórn 8. október 2020