Frá og með 1. september nk. verður verslunum alfarið óheimilt að gefa viðskiptavinum burðarpoka. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og ekki skiptir máli úr hvaða efni þeir eru. Koma verður fram á kassakvittun hvert endurgjaldið er.

Nokkurs ruglings hefur gætt um þær breytingar sem eru að eiga sér stað því eftir rúmlega eitt og hálft ár, þ.e. hinn 1. janúar 2021, tekur gildi algert bann við afhendingu burðarpoka úr plasti jafnvel þó endurgjald verði innheimt fyrir afhendingu þeirra. Frá og með þeim tíma verður hins vegar heimilt að afhenda burðarpoka úr öðru en plasti, en þá eingöngu gegn endurgjaldi.

Með burðarpoka úr plasti er átt við alla burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts. Bannið nær ekki til lífbrjótanlega poka úr maís sem ekki innihalda plast eða poka úr pappír. Slíka poka má afhenda gegn endurgjaldi frá og með 1. september nk. og það mun ekki breytast.

Skyldan til að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær aðeins til burðarpoka, þ.e. poka sem eru afhentir neytendum á sölustað, hvort sem þeir eru með eða án halda. Þetta hefur ekki áhrif á poka sem t.d. eru seldir á rúllum, í pökkum eða öðrum sölueiningum í verslunum, s.s. ruslapoka, poka fyrir gæludýraúrgang eða klakapoka.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman afar gagnlegar upplýsingar um málið sem gott er að glöggva sig á: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=f178b0cc-2b5a-4861-9c4c-cc446b1a6443