Framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og samhæfingarstöð almannavarna hafa óskað eftir því að eftirfarandi verði komið á framfæri við aðildarfyrirtæki SA og undirsamtaka:
Læknisvottorð vegna veikinda
Framkvæmdarstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur óskað eftir að SA beini þeim tilmælum til félagsmanna sinna að þeir dragi eins og kostur er úr kröfum um læknisvottorð vegna veikinda.
„Mikið álag er á heilsugæslunni vegna COVID-19 þessar vikurnar og ljóst er að það verður eitthvað áfram. Því viljum við biðla til ykkar, að draga úr kröfum um vinnuveitendavottorð eða skólavottorð vegna stuttra veikinda sem starfsfólk ykkar eða nemendur þurfa að skila inn.“
Snertilausar lausnir í viðskiptum
Gripið hefur verið til margvíslegra varúðarráðstafana til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar COVID-19. Ráðleggingar landlæknis varðandi heftingu á smiti lúta meðal annars að því að huga vel að yfirborðsflötum t.d. greiðsluposum, hraðbönkum og snertiskjám.
„Okkur langar að biðla til ykkar að hjálpa okkur að koma þessum tilmælum á framfæri við ykkar viðskiptavini og hvetja þá til að nota snertilausar greiðslulausnir í sínum viðskiptum. Á þann hátt sleppa viðskiptavinir við að slá inn lykilorð.“