Almannavarnir hafa beðið okkur að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
Frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna Covid-19
27.7.2020
Í morgun funduðu almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna þeirra smita sem greinst hafa á Íslandi frá 8. júlí. Í dag eru í heildina 21 einstaklingur með staðfest smit veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og 173 eru í sóttkví. Um ellefu aðskilin mál er að ræða. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint sýni til þess að finna uppruna og samhengi smitanna.
Þeir einstaklingar sem eru með staðfest smit hafa sýnt einkenni veirunnar en enginn er alvarlega veikur og enginn er á sjúkrahúsi. Helstu einkenni nú eru hálssærindi, vöðva- og beinverkir og slappleiki. Einhverjir hafa haft vægan hita og höfuðverk. Það er mikilvægt ef fólk finnur fyrir þessum einkennum, þótt væg séu, haldi sig til hlés og fari strax í greiningarpróf. Sömuleiðis er áríðandi að þeir sem fara í sýnatöku haldi sig heima þar til neikvæð niðurstaða hefur borist.
Með aðgerðum almannavarna, embættis landlæknis og stjórnvalda hefur hingað til náðst góður árangur í að hefta útbreiðslu Covid-19 hér á landi. Mikilvægt er að fólk hugi vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þar er handþvottur og sótthreinsun lykilatriði. Rétt er að brýna fyrir almenningi að gera slíkt áfram og að þjónustufyrirtæki og stofnanir sjái til þess að sóttvarnir séu til staðar. Ábendingar hafa borist um að sótthreinsivöki sé búinn eða ekki til staðar í verslunum, þjónustufyrirtækjum og stofnunum.
- Með þessum pósti biðlum við til fyrirtækja og stofnana að skerpa á tilmælum um sóttvarnir bæði hjá starfsmönnum og viðskiptavinum en leiðbeiningar má sjá hér að neðan;
- Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.
- Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum.
- Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.
- Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.
- Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
- Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
- Ef þú ert eldri borgari eða með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma er ráðlagt að halda sig fjarri mannamótum og fjöldasamkomum.
- Forðastu að umgangast fólk sem er með einkenni sem minna á flensu.
Leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu:
Covid.is – Vinnustaðir: https://www.covid.is/undirflokkar/vinnustadir
Á vefsíðunni www.covid.is er hægt að prenta út leiðbeiningar og veggspjöld sem hægt er að nýta: https://www.covid.is/veggspjold