Ég veit ekki hvort þú veist það en það eru allar líkur á að í dag, í gær eða a.m.k. í vikunni eigir þú viðskipti við fyrirtæki sem er í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrirtækin stuðla að frjósemi, reka leikskóla, selja matvörur, föt og byggingarvörur, miðla líftryggingum, leigja fasteignir, selja og gera við bíla, reka kvikmyndahús og veita útfararþjónustu – og allt þar á milli.
SVÞ eru málsvari um 430 fyrirtækja sem fylgja þér frá getnaði til grafar.
Þetta er ekki aðeins áhugaverð staðreynd því einkennandi greinar verslunar og þjónustu hafa mikil áhrif á samfélagið:
- Um 19% verðmætasköpunar þjóðarbúsins má rekja til verslunar og þjónustu en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa hátt í 280 milljónir brauðosta af dýrari gerðinni.
- Um 40% einkaneyslunnar fer um hendur greinanna en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa um 130 þúsund bíla af gerðinni Suzuki Vitara.
- Um 50 þúsund manns starfa í greinunum en með þeim fjölda væri unnt að kjaftfylla Laugardalsvöllinn rúmlega fimm sinnum.
- Árlega skila greinarnar 200 milljörðum króna í opinber gjöld sem er svipað og það kostar að mennta hátt í 70 þúsund grunnskólabörn.
Án fyrirtækjanna væri lítið um útrás annarra atvinnugreina. Hvar væri sjávarútvegurinn án eldsneytis og orku, varahluta og vöruflutnings? Hvernig stæði hugverkasköpunin án tæknibúnaðar? Hvernig ætli starfsmönnum í iðnaði liði án vinnufatnaðar? Væru allir ferðamennirnir enn í Reykjanesbæ ef engir væru bílarnir? Með hverju á að hræra í pottunum ef engar eru sleifarnar?
Það er hlutverk SVÞ að minna á þetta samhengi – og skapa vettvang þar sem fólk stillir saman strengi, ræðir áskoranir og horfir til framtíðar. Hinn 7. október næstkomandi fara fram Haustréttir SVÞ – leiðtogafundur verslunar og þjónustu.
Frá getnaði til grafar og inn í framtíðina. SVÞ standa vörð um hagsmuni sem snerta alla landsmenn, á hverjum einasta degi.
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Grein á Vísi Við fylgjum þér frá getnaði til grafar – Vísir