Í fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að innkoma Costco hefur sannarlega hreyft við verslunarmynstrinu hér á landi og viðbrögð neytenda hafa ekki látið á sér standa. Of snemmt er hins vegar að segja til um hver áhrifin verða, bæði hvað varðar markaðshlutdeild Costco á smásölu- og heildsölumarkaði og hins vegar áhrif á verðlag. Verslunin opnaði 23. maí sl. og var því aðeins starfrækt í rúma viku af þeim mánuði. Veltutölur þær sem Rannsóknasetur verslunarinnar birta hér ná ekki til veltu Costco. Af þeim tölum sem fyrirliggjandi eru um veltu frá verslunum sem fyrir voru á markaði í maí jókst heildarumfang þeirra frá sama mánuði í fyrra. Þetta á bæði við um dagvöruverslun og raftækjaverslun en samkeppni Costco við verslanir á þessum sviðum hafa verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið.
Sjá nánar um markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum hér að neðan.
Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí síðastliðinn en í sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem fyrir voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili. Ætla má að sú verðlækkun stafi annars vegar af styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar af aukinni samkeppni með innkomu Costco. Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum.
Verðlagsmæling Hagstofunnar, sem hér er stuðst við, var síðast gerð um miðjan maímánuð, eins og venja er. Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði.
Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitalan nær til lækkaði í árssamanburði í maí en einungis skófatnaður hækkaði í verði, um 3,5% frá maí í fyrra.
Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og o.s.fr.) var 13,7% meiri í maí síðastliðnum samanborið við maí 2016 á breytilegu verðlagi. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7%, velta brúnvara (sjónvörp o.fl.) um 3,8% og velta farsíma um 2,8% samanborið við sama mánuð í fyrra. Líkt og í dagvöruverslun miðar mælingin við þær verslanir sem fyrir voru og tekur ekki til veltu Costco.
Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingavara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%
Markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum
Ef horft er til áhrifa á markaðshlutdeild fjölþjóðlegra lágvöruverðsverslana, sem hafa haslað sér völl í hinum Norðurlöndunum, sést að markaðshlutdeild þeirra er á bilinu fj
Þær lágvöruverðsverslanir sem hér er vísað til á hinum Norðurlöndunum eru einkum Lidl og Aldi, sem hafa takmarkað vöruúrval, selja gjarna í stórum einingum og leggja áherslu á lægra vöruverð en í þeim verslunum sem bjóða breiðara vöruval og hafa meiri þjónustu. Costco er að nokkur leyti líkt ofangreinum lágvöruverðsverslunum en hafa einnig önnur einkenni því þar er að finna ýmislegt fleira en matvörur og viðskiptamódelið byggir á áskriftargjaldi viðskiptavina. Þá er Costo frábrugðið lávöruverðskeðjunum í Skandinavíu að því leyti að hér er aðeins ein verslun en á Norðurlöndunum eru útsölustaðirnir mun fleiri.
Eins og sjá má af meðfylgjandi skýringarmyndum hefur lágvöruverðskeðjan Lidl um 4% markaðshlutdeild í Svíþjóð og liðlega 8% í Finnlandi. Samsetning þeirra verslana sem skilgreina má sem lágvöruverðsverslanir er nokkuð mismunandi á milli landa, en heildarmyndin sýnir að innlendu dagvöruverslunarkeðjurnar hafa yfirburðastöðu í öllum löndunum.
Athyglisvert er einnig að á öllum Norðurlöndunum eru tvær til þrjár verslunarkeðjur sem ráða langstærstum hluta markaðarins. Þetta á jafnt við um Ísland sem og hin Norðurlöndin.
Velta smásöluverslana í maí
Velta í dagvöruverslun jókst um 1,2% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 4,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 17,7% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 11,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,5% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 2,5% í maí á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -3,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í maí um 3,5% frá maí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 14,2% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 23,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í maí um 10,6% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 18,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 2,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.